Fréttir

Knattspyrna | 16. mars 2008

Tap á Austfjörðum

Fjarðabyggð lagði lið Keflavíkur með tveimur mörkum gegn einu í Lengjubikar karla á laugardag en lokamark leiksins kom þegar fjórar  mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum.  Þó fékk Keflavík þrjú mjög góð marktækifæri á meðan Fjarðabyggð fékk tvö góð færi og nýtti annað.  Fannar Árnason kom þeim yfir eftir rúmlega hálftíma leik eftir að hafa sloppið einn inn fyrir vörn Keflavíkur.  Hann braut reyndar gróflega á Kenneth án þess að dómari leiksins, sem réði engan veginn við verkefnið og fór gjörsamlega á taugum í leiknum, sæi nokkuð athugavert.

Keflvíkingar stjórnuðu algjörlega leiknum í síðari hálfleik en Austfirðingar höfðu tekið rútu okkar Keflvíkinga og lagt henni fyrir framan markið sitt þannig að nánast var óvinnandi var að komast að því.  Við nýttum ekki færin sem sköpuðust og það endaði með því að Sigurður Víðisson bætti við öðru marki fyrir Fjarðabyggð á 89. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu af 20 metra færi.

Guðmundur Steinarsson minnkaði muninn fyrir Keflavík í uppbótartíma með mögnuðu skoti frá D-boganum óverjandi í bláhornið. 

Liðið lék alls ekki nógu vel og þá sérstaklega í  fyrri hálfleik þar sem fjölmargar sendingar fóru forgörðum og hreyfingin á leikmönnum var slök.  Því miður tap í þetta sinn en það sem er hægt að taka jákvætt út úr leiknum er að enginn meiddist þrátt fyrir töluverð átök. 

Næsti leikur er Reykjanesslagur Keflvíkinga  gegn Njarðvík á þriðjudag í Reykjaneshöll klukkan 18:30.

Keflavík: Ómar - Garðar (Sigurbjörn), Kenneth, Nicolai, Brynjar - Högni, Jón Gunnar, Magnús (Einar), Hafsteinn (Sigurbergur) - Guðmundur, Patrik.


Guðmundur fyrirliði kom tuðrunni í netið undir lokin.