Tap á heimavelli
Erfið byrjun Keflavíkur hélt áfram þegar liðið tók á móti Fylki í 5. umferð Pepsi-deildarinnar. Okkar menn urðu að sætta sig við tap en lokatölur urðu 3-1 gestunum í vil. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Andrés Már Jóhannesson og Albert Brynjar Ingason fyrir Fylki snemma í seinni hálfleik. Magnús Þorsteinsson minnkaði muninn skömmu síðar en Oddur Ingi Guðmundsson innsiglaði sigur gestanna. Eftir leikinn er Keflavík í 11. sæti deildarinnar með eitt stig.
Næst á dagskrá eru tveir leikir gegn KR, útileikur í deildinni sunnudaginn 31. maí og síðan heimaleikur í bikarnum miðvikudaginn 3. júní
-
Þetta var 35. leikur Keflavíkur og Fylkis í efstu deild. Þetta var 13. sigur Fylkis, Keflavík hefur unnið 12 leiki en tíu hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 43-54 fyrir Fylki.
-
Magnús Þorsteinsson skoraði 32. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild og hann er orðinn 8. markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi. Þetta var fjórða mark Magnúsar gegn Fylki í efstu deild.
-
Sigurbergur Elísson lék sinn 50. leik fyrir Keflavík í efstu deild. Fyrsti leikur hans í deildinni var einmitt gegn Fylki árið 2007. Sigurbergur varð þá yngsti leikmaður efstu deildar frá upphafi en Hilmar Andrew McShane bætti metið í lokaumferð deildarinnar í fyrra.
-
Þetta var fjórði útisigur Fylkis gegn Keflavík í efstu deild. Þessir fjórir sigrar hafa komið í fimm síðustu leikjum liðanna í Keflavík en áður hafði Fylki ekki tekist að sigra í fyrstu 13 leikjum liðanna á heimavelli okkar.
- Keflavík hefur fengið eitt stig úr fyrstu fimm leikjum sínum en það er versta byrjun liðsins frá árinu 1960. Þá fékk Keflavík einnig aðeins eitt stig úr fyrstu fimm umferðunum.
Myndir: Jón Örvar Arason