Fréttir

Knattspyrna | 21. ágúst 2010

Tap á Selfossi

Selfoss sigraði Keflavík 3-2 í 16. umferð Pepsi-deildarinnar á fimmtudaginn.  Keflvíkingar eru dottnir niður í 6. sæti og eru einum 10 stigum á eftir toppliði ÍBV.  Frammistaða liðsins í seinni hálfleik var skelfileg en Selfoss skoraði þá þrjú mörk og tryggði sér sigurinn.

Leikurinn byrjaði vel fyrir okkar menn og stjórnuðu þeir öllu sem hægt var að stjórna.  Við fengum fín færi og og vorum með yfirburði á vellinum. Magnús Þórir skoraði fallegt mark á 12. mín eftir góða samvinnu við Hörð.  Á 37. mínútu skoraði Hörður síðan gott mark eftir að hafa komist inn fyrir vörn Selfoss.  Hvert færið rak annað en ekki vildi boltinn inn.  Forystan í hálfleik 0-2 og Keflavík með yfirburði á öllum sviðum.

Það er erfitt að skilja hvað gerðist í seinni hálfleik hjá Keflavík.  Selfoss fór að stjórna leiknum og snúa honum sér í hag svo um munaði.  Heimamenn gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk og unnu 3-2.  Frammistaða Keflavíkur í seinni hálfleik var vægast sagt léleg.  Alveg með ólíkindum hvað liðið kom illa til leiks í þessum seinni hálfleik og verðugt umhugsunarefni fyrir liðið og Willum þjálfara.  Við fengum þó tvö dauðafæri og hefðum átt að snúa þessu okkur í hag.  En okkur tókst ekki að skora og því fór sem fór.

Keflavík er komið í 6. sæti deildarinnar og liðið hefur ekki verið að gera neinar rósir undanfarið.  Hvernig má það vera að vera 0-2 yfir og vera með yfirburði og detta svo gjörsamlega niður?  Þegar stórt er spurt er fátt um svör.  Það er stutt í næsta leik sem er á mánudag gegn Stjörnunni á Sparisjóðsvellinum og vonandi ná strákarnir að sýna sitt rétta andlit í 90 mínútur.

  • Keflavík og Selfoss hafa nú leikið heila tvo leiki í efstu deild, unnið sitt hvorn leikinn og markatalan er 4-4.
     
  • Þeir Magnús Þórir og Hörður skoruðu báðir sitt annað mark í sumar.  Mark Harðar var hans 25. mark fyrir Keflavík í efstu deild og hann er þar með jafn Hauki Inga Guðnasyni í 9.-10. sæti yfir markahæstu leikmenn Keflavíkur frá upphafi.  Jón Jóhannsson og Einar Ásbjörn Ólafsson detta út af topp 10 listanum en þeir eru með 24 mörk.
      
  • Keflavík hefur nú aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum liðsins í deildinni.  Liðið hefur gert tvö jafntefli en tapað fjórum af þessum leikjum, gegn ÍBV, Breiðabliki, KR og Selfossi.
                

Fótbolti.net
Fleira gerðist ekki í þessum bráðfjöruga og kaflaskipta leik. Þetta féll svo sannarlega með heimamönnum í dag sem hefur ekki alltaf verið raunin í sumar og sýndu þeir gríðarlegan karakter að koma til baka eftir að hafa verið 0-2 undir gegn sterku liði Keflavíkur. En á móti geta Suðurnesjamenn sannarlega nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki klárað þennan leik, já eða kannski fyrir að hafa haldið að þeir væru búnir að klára þennan leik.

Fréttablaðið / Vísir
Selfyssingar sýndu ótrúlegan karakter þegar þeir tryggðu sér 3-2 sigur á Keflavík í dramatískum vígsluleik á nýja Selfossgrasinu í kvöld. Keflvíkingar fóru illa með frábæra stöðu í hálfleik en það dugði þeim ekki að vera 2-0 yfir því þeir réðu ekkert við baráttuglaða heimamenn í seinni hálfleiknum.

Keflvíkingar ollu enn á ný vonbrigðum. Þeir fengu vissulega færin til að vera löngu búnir að gera út um leikinn en værukærðin færðist yfir þá í seinni hálfleik og þetta tap þýðir að Willum Þór Þórsson og lærisveinar hans eru væntanlega endanlega úr leik í toppbaráttunni í sumar.
Lasse 5, Guðjón 5 (Andri Steinn -), Alen 5, Bjarni 6, Haraldur 5, Einar Orri 5, Hólmar Örn 6, Magnús Sverrir 5, Magnús Þórir 5, Guðmundur 5 (Brynjar Örn - ), Hörður 5.

Morgunblaðið / Mbl.is
Það var ekkert sem benti til þess eftir 45 mínútna leik að Selfyssingar væru á leiðinni að krækja sér í þrjú stig á móti Keflvíkingum í gærkvöldi. Heimamenn náðu sér engan veginn á strik í vígsluleiknum á nýja grasvellinum á meðan Keflvíkingar léku virkilega vel og hefðu hæglega getað gert fleiri en tvö mörk, en staðan var 2:0 fyrir þá í hálfleiknum.

Eitthvað gerðist í búningsherbergi Selfyssinga í leikhléi því leikmenn komu út, voru gjörsamlega búnir að gleyma fyrri hálfleiknum og léku eins og englar og uppskáru þrjú mörk og þrjú stig. Úr þessu varð því vígsluleikur sem seint gleymist. Því miður fyrir þá breytti það stöðunni ekki mikið og liðið er enn í næstneðsta sæti deildarinnar, en á eftir að fara ofar ef það leikur heilan leik eins og það lék síðari hálfleikinn í gær.
M: Haraldur, Hólmar Örn, Magnús Þórir, Hörður.

Víkurfréttir /VF.is
Keflvíkingar léku vel í fyrri hálfleik en voru afar slakir í seinni. Lasse markvörður hlýtur að sofa illa eftir slælega frammistöðu og fyrstu tvö mörkin skrifast að mestu leyti á hann, fyrra markið átti hann skuldlaust eftir skógarferð og það seinna braut hann á rakarasyninum frá Selfossi sem síðan skoraði sigurmarkið. Þar lak Keflavíkurvörnin eins og gatasigti og leiðin var greið fyrir rakarasoninn sem kom inn á í síðari hálfleik. Annars var leikurinn kaflaskiptur þar sem heimamenn léku eins og topplið í síðari hálfleik og höfðu yfirburðu gegn lélegum Keflvíkingum sem voru betri í þeim fyrri.  


Pepsi-deild karla, Selfossvöllur, 19. ágúst 2010
Selfoss 3
(Jón Guðbrandsson 52., Viktor Unnar Illugason víti  81., Viðar Örn Kjartansson 87.)
Keflavík 2 (Magnús Þórir Matthíasson  12., Hörður Sveinsson 37.)

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson (Andri Steinn Birgisson 87.), Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson (Brynjar Örn Guðmundsson 85.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Magnús Þór Magnússon, Paul McShane Bojan Stefán Ljubicic, Jóhann Birnir Guðmundsson.
Gult spjald: Einar Orri Einarsson (51.).

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson.
Aðstoðardómarar: Smári Stefánsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Varadómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.
Eftirlitsdómari: Guðmundur Sigurðsson.
Áhorfendur: 1239.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir.





Liðin ganga til leiks á nýjum Selfossvellinum.


 
Magnús Þórir skorar fyrsta markið.