Tap á teppinu
Keflavík tapaði sínum fimmta leik í sumar þegar liðið heimsótti Stjörnuna í 7. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn var jafn en það voru heimamenn sem náðu að gera eina markið en það gerði Ólafur Karl Finsen eftir um hálftíma leik. Okkar menn léku reyndar ágætlega en tókst ekki að nýta færin og urðu að sætta sig við naumt tap.
Eftir leikinn er Keflavík í 9. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir sjö umferðir. Næsti leikur er annar útileikur, nú gegn ÍA á Norðuráls-vellinum á Akranesi mánudaginn 24. júní kl. 19:15.
-
Þetta var 17. leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í efstu deild. Þetta var fimmti sigur Stjörnunnar, Keflavík hefur unnið sjö leiki en fimm sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 26-22 fyrir Keflavík.
-
Grétar Atli Grétarsson kom inn í byrjunarlið Keflavíkur og lék sinn fyrsta leik í sumar. Bojan Stefán Ljubicic var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn í sumar.
-
Keflavík hefur aðeins náð í fjögur stig í fyrstu sjö leikjum sumarsins og hefur unnið einn leik, gert eitt jafntefli en tapað fimm leikjum. Þetta er versta byrjun liðsins síðan árið 1968 en þá var liðið aðeins með tvö stig eftir sjö umferðir. Það ár vann Keflavík reyndar ekki leik en hélt sæti sínu í efstu deild eftir aukakeppni við lið í B-deildinni en liðum í efstu deild var fjölgað úr sex i sjö þetta ár.