Tap fyrir KR í Frostaskjóli
Meistarflokkur kvenna beið lægri hlut fyrir KR-stúlkum í fjórðu umferð Landsbankadeildar kvenna í gær, þriðjudag, með fjórum mörkum gegn einu.
Keflavík stillti upp þremur nýjum leikmönnum, Nínu Ósk Kristinsdóttur, Vesnu Smiljkovic og Katarinu Jovic. Nína var að spila sinn fyrsta leik með Keflavík í efstu deild.
KR-liðið var sterkari aðilinn í þessum leik. Fyrri hálfleikur var að mestu eign KR, Keflavík gekk illa að ná upp festu í miðjuspil sitt og komu KR-stelpur vörn Keflavíkur margoft í vandræði með kantspili sínu. KR skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 41. mínútu eftir að boltanum var stungið inn fyrir vörn Keflavíkurliðsins.
Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar KR setti sitt annað mark eftir fyrirgjöf fyrir markið. Þriðja mark KR kom á 64. mínútu og það fjórða á þeirri 74. Keflavík komst aðeins inn í leikinn síðustu 20 mínúturnar og uppskar mark á 84. mínútu þegar Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði úr vítaspyrnu sem hún sótti sjálf. Og rétt fyrir leikslok sótti Keflavík sína aðra vítaspyrnu eftir að KR leikmaður hafði handleikið knöttinn innan vítateigs. Aftur tók Nína spyrnuna en nú setti hún boltann þéttingsfast í slá KR-marksins. Keflavíkurliðið spilaði þennan leik ekki vel, en ekki má gleyma því að þú spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir.
Næsti leikur er gegn ÍBV n.k. laugardag, 18.júní, kl.14:00.
Lið Keflavíkur: Mist, Donna, Björg Ásta, Katarina (Claire), Sunna, Nína Ósk, Lilja Íris, Hrefna (Jessica), Vesna, Ásdís, Ágústa Jóna.
Varmenn: Þóra Reyn, Jessica, Hjördís, Clair, Elísabet
Nýju leikmennirnir, Vesna og Katarina, fyrir leikinn á móti KR.