Tap fyrir Stjörnunni í Garðabæ

Keflavík tapaði fyrir liði Stjörnunnar í 13.umferð Landsbankadeildar kvenna í gær með 2 mörkum gegn 1. Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði mark Keflavíkur á 62. mínútu og kom Keflavík yfir í leiknum en með mikilli baráttu náði Stjarnan að skora sigurmarkið þegar 3 mínútur voru eftir af leiknum. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og var lið Stjörnunar greinilega betur stemmt í leiknum og þurfti að sigra til að eiga möguleika á áframhaldandi veru í efstu deild. Keflavík spilaði sinn slakasta leik í langan tíma. Ekki er þó öll nótt úti enn því síðasti leikur liðsins á þessu tímabili fer fram á sunnudag kl. 14:00 þegar ÍA kemur í heimsókn til Keflavíkur og þá kemur ekkert annað en sigur til greina.
Keflavík er búið að tryggja tilverurétt sinn í efstu deild kvenna strax á sínu fyrsta ári og er það samkvæmt því markmiði sem sett var í vor. Liðið er í 5. sæti deildarinnar þrátt fyrir tapið með 15 stig og 6 mörk í mínus þegar einn leikur er eftir. Stjarnan er í 6. sæti með 12 stig og 19 mörk í mínus.
Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði mark Keflavíkur í gær. (Mynd: Jón Örvar Arason)