Fréttir

Knattspyrna | 21. apríl 2005

Tap fyrir Víkingum

Að kvöldi síðasta vetrardags lék mfl. karla æfingaleik við Víkinga í Egilshöll.  Leikurinn var jafnframt fyrsti leikur Baldurs Sigurðssonar sem fyrir leikinn skrifaði undir þriggja ára samning við Keflavík.  Baldur kemur frá Völsungum á Húsavík og er talinn einn efnilegasti leikmaður landsins um þessar mundir.  Hann leikur á miðjunni eða sem framlínumaður og er góður liðsauki fyrir Keflavík og er hann boðinn velkominn í okkar hóp.  Baldur skoraði annað mark Keflavíkur í leiknum og lætur því strax fyrir sér finna með nýju liði.  Leikurinn við Víkinga var mikill tilraunaleikur þar sem Guðjón þjálfari reyndi nýja uppstillingu í leik liðsins. Það er að sjálfsögðu ekki afsökun fyrir tapinu en liðið er í þungum æfingum og verður örugglega á réttu róli þegar deildin hefst 16. maí.  Leikurinn fór 4-2 fyrir Víkinga en það var Guðmundur Steinarsson sem skoraði fyrra mark Keflavíkur, en Guðmundur skorar í hverjum leik og er það góðs viti fyrir sumarið.  Það var síðan nýliðinn Baldur sem skoraði seinna mark Keflavíkur.  ási