Tap gegn Blikum
Það vantaði ekki sólina og góða veðrið á sunnudaginn þegar Breiðablik kom í heimsókn á Sparisjóðsvöllinn í 12. umferð Pepsi-deildarinnar. Það fór svo að lokum að Breiðabliksmenn sigruðu 0-2 í leik þar sem fullt af færum Keflvíkinga fóru forgörðum.
Keflvíkingar voru mikið sterkari í fyrri hálfleik og tókst að skapa sér fjölmörg færi. Staðan var 0-0 í hálfleik og heimamenn líklegri. En Blikar komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleikinn og kláruðu leikinn með tveimur mörkum. Kristinn Steindórsson gerði fyrra markið á 72. mínútu og Alfreð Finnbogason bætti öðru marki við í lokin þegar okkar menn reyndu að jafna leikinn.
Keflavík er nú í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt FH með 19 stig en Breiðablik komst með sigrinum á topp deildarinnar með 26 stig.
Næsti leikur okkar manna er gegn Grindavík mánudaginn 26. júlí á Sparisjóðsvellinum og hefst hann klukkan 19:15.
-
Keflavík og Breiðablik hafa nú leikið 44 leik í efstu deild. Keflavík hefur unnið 21 leik og tíu hefur lokið með jafntefli en þetta var 13. sigur Breiðabliks. Markatalan er 79-62 fyrir Keflavík.
-
Breiðablik hefur nú unnið þrjá af síðustu fjórum deildarleikjum liðanna í Keflavík. Þar áður hafði Keflavík unnið fimm heimaleiki í röð gegn Blikum.
-
Brynjar Örn er kominn yfir 50 deildarleiki fyrir Keflavík en leikur númer 50 kom reyndar gegn Eyjamönnum á dögunum. Brynjar lék sinn fyrsta deildarleik í september 2001 þannig að það hefur tekið hann níu ár að komast í 50 stykki. Ástæðan er reyndar sú að pilturinn lék ein fjögur ár með Reyni frá Sandgerði. Guðjón Árni lék einnig tímamótaleik úti í Eyjum en það var deildarleikur númer 150. Reyndar fékk leikurinn heldur snubbóttan endi þegar Gaui fékk sitt annað gula spjald á lokamínútunni og er sjálfsagt enn að velta fyrir sér af hverju hann fékk spjaldið.
Fótbolti.net
Keflvíkingar eru eftir úrslitin í kvöld í fjórða sæti, sjö stigum á eftir efstu liðunum og Willum er ekki bjartsýnn á framhaldið.
,,Ekkert sérstaklega. Mér fannst við bregðast núna á úrslitastundu. Mér fannst við sýna veikleika sem ég hef ekki séð áður," sagði Willum en á Keflavík ennþá möguleika á tiltinum?
,,Það er mjög fjarlægt. Þú getur aldrei útilokaði neitt en ef ég á að vera alveg eðlilegur þá myndi ég segja að við höfum ekki lið í það í dag."
Fréttablaðið / Vísir
Heimamenn gátu jafnað stuttu síðar en þá komst Magnús Sverrir Þorsteinsson einn inn fyrir á móti Ingvari Kale í marki Blika en Ingvar sá við honum og varði meistaralega.
Alfreð Finnbogason kláraði dæmið fyrir Breiðablik og innsiglaði dýrmætan sigur þeirra með marki eftir að hafa sloppið einn í gegn eftir góðan undirbúning frá Finni Orra Margeirssyni.
Mikilvægur sigur Blika sem færir þeim toppsætið en Keflvíkingar eru hinsvegar að dragast aftur úr lestinni og þurfa að skoða sín mál fyrir seinni hluta sumars ef þeir ætla að vera með í toppbaráttunni.
Ómar 5, Brynjar Örn 5, Alen 6 (Sigurður Gunnar -), Bjarni 6, Haraldur 6, Paul 5, Hólmar Örn 6, Jóhann Birnir 6 (Ómar Karl -), Magnús Sverrir 5, Guðmundur 6, Hörður 6 (Magnús Þórir -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Bæði lið sköpuðu sér fín færi í fyrri hálfleik en þó voru Keflvíkingar örlítið beittari framan af. En þetta virðist vera saga Keflvíkinga í síðustu leikjum, þeir fá ágætisfæri en klára þau ekki. Eitt stig úr síðustu þremur leikjum hjá Keflvíkingum er lítill afli eftir að hafa byrjað mótið fantavel, en þá sögu finnst undirritaður hann hafa heyrt áður, þ.e.a.s. með góða byrjun Keflvíkinga á Íslandsmótinu.
Munu Keflvíkingar spýta í lófana og fara að klára færin sín eða toppuðu þeir einfaldlega á röngum tíma í mótinu? Vissulega vantar ekki getuna hjá Keflvíkingum því flestallir í liðinu eru hlaðnir reynslu í efstu deild og hafa sýnt fyrr í sumar að þeir geta gert betur.
M: Alen, Haraldur, Bjarni.
Víkurfréttir /VF.is
Blikarnir voru töluvert hressari í seinni hálfleik og áttu töluvert fleiri færi en heimamenn. Á 56. mínútu voru Blikarnir mjög nálægt því að komast yfir. Guðmundur Pétursson var þá í dauða færi en skot hans fór rétt framhjá marki Keflvíkinga. Það var síðan Kristinn Steindórsson sem skoraði fyrsta mark leiksins og kom Blikum í 0-1. Sending barst inn í teig á Andra Rafn sem gaf boltann á Kristinn sem afgreiddi hann snyrtilega í markið. Eftir þetta reyndu Keflvíkingar að jafna metin en lítið gekk í sóknarleiknum. Á 86. mínútu gerðu Blikar út um leikinn með marki frá Alfreði Finnbogasyni. Stungusending barst inn í teiginn og Alfreð renndi boltanum auðveldlega í markið. Keflvíkingar reyndu að klóra í bakkan á 90. mínútu með skoti frá Hólmari Erni Rúnarssyni en boltinn fór rétt framhjá tréverki Blikanna. Lokatölur því 0-2 fyrir Breiðablik sem sitja nú við hlið ÍBV á toppi deildarinnar.
Pepsi-deild karla, Sparisjóðsvöllurinn, 18. júlí 2010
Keflavík 0
Breiðablik 2 (Kristinn Steindórsson 72., Alfreð Finnbogason 86.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Alen Sutej (Sigurður Gunnar Sævarsson 80.), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Paul McShane, Hólmar Örn Rúnarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Ómar Karl Sigurðsson 76.), Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson (Magnús Þórir Matthíasson 76.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic.
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (59.).
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Varadómari: Gunnar Sverrir Gunnarsson.
Eftirlitsdómari: Þórður Ingi Guðjónsson.
Áhorfendur: 1.441.
Ein af mörgum sóknum okkar manna í fyrri hálfleik en allt kom fyrir ekki.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)