Fréttir

Tap gegn Fylki á heimavelli
Knattspyrna | 24. júlí 2012

Tap gegn Fylki á heimavelli

Keflavík tapaði fyrir Fylki í 12. umferð Pepsi-deildarinnar en liðin mættust á Nettó-vellinum.  Gestirnir gerðu tvö mörk í lokin og unnu 2-0 en það voru Jóhann Þórhallsson og Ingimundur Níels Óskarsson sem gerðu mörkin.

Eftir leikinn er Keflavík í 8.-9. sæti deildarinnar með 15 stig eftir tólf leiki.  Næsti leikur er heimaleikur gegn Grindavík á Nettó-vellinum mánudaginn 30. júlí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 30. leikur Keflavíkur og Fylkis í efstu deild.  Þetta var 10. sigur Fylkis, Keflavík hefur unnið 11 leiki og níu sinnum hefur orðið jafntefli.  Markatalan er 36-43 fyrir Fylki.
             
  • Fylkir vann annan sigurinn í röð í Keflavík eftir að hafa ekki tekist að sigra í fyrstu 13 leikjum liðanna á heimavelli okkar í efstu deild.
      
  • Haraldur Freyr Guðmundsson lék sinn 100. leik fyrir Keflavík í efstu deild en sá fyrsti kom árið 1999.  Haraldur hefur skorað sex mörk í leikjunum eitt hundrað en hann hefur að auki leikið 18 leiki í B-deildinni (2 mörk), 20 bikarleiki (4 mörk) og 55 leiki í deildarbikarnum (2 mörk).
     
  • Gregor Mohar gat ekki leikið vegna meiðsla og tók Magnús Þór Magnússon stöðu hans í vörninni.  Frans Elvarsson kom aftur inn í liðið eftir að hafa misst af síðasta leik.
      
  • Keflavík tapaði sínum þriðja heimaleik í sumar en liðið hefur auk þess gert tvö jafntefli heima en aðeins unnið einn heimaleik.  Liðið hefur fengið fimm stig af 18 mögulegum á heimavelli en tíu af 18 á útivöllum.  Tíu af fimmtán stigum liðsins í Pepsi-deildinni hafa því komið á útivöllum.     
     

Fótbolti.net
Fylkir vann verðskuldaðan 2-0 útisigur gegn Keflavík í kvöld. Keflvíkingar voru örlítið betri í annars tíðindalitlum fyrri hálfleik en í þeim síðari voru gestirnir með nánast öll völd á meðan Keflvíkingar ógnuðu ekkert.

Það var rok í Keflavík og hafði það talsverð áhrif. Til að mynda átti Jóhann Birnir Guðmundsson óvænt skot í slánna eftir að rokið tók boltann.

Besta færið í fyrri hálfleik fékk Björgólfur Takefusa en þá skaut hann framhjá úr dauðafæri.

Baráttan og viljinn var hjá gestunum í kvöld og þeir komust yfir þegar Jóhann Þórhallsson skoraði stórglæsilegt mark eftir að hafa komið inn sem varamaður. Hann vippaði boltanum glæsilega yfir Ómar Jóhannsson.

Ingimundur Níels Óskarssson innsiglaði sigurinn með góðu skoti.

Fréttablaðið / Vísir
„Það eru mikil vonbrigði að tapa heima. Við vorum að spila vel í síðustu leikjum og náum fínum úrslitum en í kvöld vantar allt hjá okkur. Við byrjum illa og vorum ekki með fyrr en þeir fá dauðafæri. Við vöknum þá til lífsins síðustu tíu fimmtán mínútur hálfleiksins og gátum skorað tvö, þrjú mörk en því miður gerðum við ekkert,“ sagði Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur vonsvikinn að leiknum loknum.

„Það var miklu meiri barátta og gleði í þeirra liði. Það vantaði allan vilja og baráttu í okkar leik í kvöld. Í seinni hálfleik voru þeir miklu tilbúnari og unnu næstum því alla bolta. Við vorum alltaf á eftir þeim og ekkert spil gekk. Sérstaklega á miðjunni,“ sagði Zoran sem vildi lítið tjá sig um hvað væri í deiglunni hjá Keflavík nú þegar félagaskiptaglugginn er opinn.

„Ég held að við þurfum að styrkja liðið með einum til tveimur leikmönnum en það gekk vel þegar við vorum ekki með marga meidda leikmenn en við söknuðum Gregor Mohar miðvarðar okkar sem hefur verið mjög góður sem meiddist í síðasta leik.“

Ómar 6, Grétar Atli 3, Jóhann Ragnar 5, Magnús Þór 6, Haraldur 6, Einar Orri 6, Arnór Ingvi 4 (Hilmar Geir 4) , Frans 5 (Denis -), Sigurbergur 3 (Magnús Sverrir -), Jóhann Birnir 4, Guðmundur 4.

Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar halda áfram að valda stuðningsmönnum sínum heima fyrir vonbrigðum þrátt fyrir hinsvegar fína frammistöðu gegn KR í síðasta leik. Nettóvöllurinn átti að verða þeirra »ljónagryfja« þetta árið en af 15 stigum sem þeir hafa fengið í sumar hafa aðeins 5 þeirra komið á heimavelli. Í þetta skiptið virtust ekki allir leikmenn vera tilbúnir í verkefnið að undanskildum hugsanlega Einari Orra Einarssyni sem barðist vel.

Keflvíkingar áttu hinsvegar prýðis 20 mínútur í fyrri hálfleik þar sem þeir litu út fyrir að ætla sér að skora en þó nokkuð vantaði uppá.

M: Magnús Þór, Jóhann Ragnar, Einar Orri.

Víkurfréttir / VF.is
Framherjinn Guðmundur Steinarsson var svo sem ekki kampakátur þegar Víkurfréttir náðu af honum tali, enda þurftu hans menn í Keflavík að sætta sig við ósigur á heimavelli gegn Fylkismönnum í mikilvægum leik í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í gær. Guðmundur sagði að það hefði vantað eitthvað uppá í gær og Fylkismenn hafi einfaldlega sýnt meiri baráttu. „Ég hélt að viljinn hefði verið til staðar hjá okkur en það virðist hafa verið erfitt að rífa mannskapinn upp í gær.“ Guðmundur sagði að vissulega hafi veðrið átt þar hlut að máli en það sé þó engin afsökun.

Nú þegar tímabilið er hálfnað eru Keflvíkingar í 8. sæti með 12 stig. Guðmundur er á því að næstu 2-3 umferðir muni ráða miklu um það hvernig málin þróast. „Þá kemur í ljós hverjir ætla að vera í baráttu um Evrópusæti og hverjir sogast í fallbaráttuna. Svo eru það liðin sem eru eins og á Ólympíuleikunum, bara með,“ sagði framherjinn léttur.

Hann segir Keflvíkinga nokkuð sátta við stöðuna en það svíði óneitanlega að hafa ekki náð að hala inn fleiri stigum á heimavelli, þá væri staðan vissulega betri.

Næsti leikur Keflvíkinga er grannaslagur gegn Grindvíkingum en þá leika Keflvíkingar einmitt á heimavelli. „Þeir slógu okkur út úr bikarnum og það ætti að vera nóg til þess að koma okkur í gír fyrir þann leik. Það verður gaman að takast á við Grindvíkinga eins og svo oft áður.“

Þegar Guðmundur var svo loks spurður út í það hvort hann teldi að Keflvíkingar þyrftu að styrkja hóp sinn fyrir lokaátökin, en félagaskiptaglugginn er galopinn um þessar mundir, þá var hann ekki svo viss um það. „Það er sjálfsagt pláss fyrir góða leikmenn í liði okkar en ég vil persónulega klára mótið með þessum hóp. Við eigum að vera nógu góðir til þess að ná að fylla í skörðin ef meiðsli ber að garði.“

 
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 23. júlí 2012
Keflavík 0
Fylkir 2
(Jóhann Þórhallsson 76., Ingimundur Níels Óskarsson 88.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson,  Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Sigurbergur Elísson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 73.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason (Hilmar Geir Eiðsson 62.), Frans Elvarsson (Denis Selimovic 78.), Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Bojan Stefán Ljubicic, Daníel Gylfason.

Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Aðstoðardómarar: Gunnar Sverrir Gunnarsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Björn Guðbjörnsson.
Áhorfendur: 900.
 

Myndir: Jón Örvar og Eygló.