Tap gegn ÍA í slökum leik
Keflavíkurliðið tapaði öðrum leiknum í röð í Landsbankadeildinni, nú á heimavelli gegn Skagamönnum í roki og kulda á Keflavíkurvelli. Lokatölur urðu 0-2 og voru okkar menn einfaldlega slakir í leiknum og náðu aldrei að ógna marki gestanna.
Skagamenn léku undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og sóttu nokkuð stíft, sérstaklega í byrjun. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 41. mínútu þegar Julian Johnson skallaði aukaspyrnu utan af miðjum velli í netið. Í seinni hálfleik lægði heldur og hefði það átt að henta okkar mönnum ágætlega. Þeir náðu sér hins vegar aldrei á strik og ógnuðu í raun aldrei markinu. Skagamenn komust næst því að skora þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en þá komst Ellert Jón Björnsson einn í gegn en skaut í stöng. Seinna mark gestanna kom á 66. mínútu þegar fyrirgjöf lenti í varnarmanni og í netið, slysalegt mark. Undan lokin reyndu okkar menn að sækja framar og Scott og Magnús áttu nokkra ágæta spretti eftir að hafa komið inn á sem varamenn. En Skagamenn vörðust fremur auðveldlega og höfðu sigur eins og áður sagði.
Scott með boltann en hafði ekki erindi sem
erfiði frekar en félagar hans í þessum leik.
(Mynd: Hilmar Bragi / Víkurfréttir)
Keflavíkurvöllur, 23 júní 2004
Keflavík 0
ÍA 2 (Julian Johnson 41., sjálfsmark 66.)
Keflavík (4-4-2): Ólafur Gottskálksson - Guðjón Antoníusson, Haraldur Guðmundsson, Sreten Djurovic, Ólafur Ívar Jónsson - Ingvi Rafn Guðmundsson (Scott Ramsay 72.), Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsson, Hólmar Örn Rúnarsson - Þórarinn Kristjánsson (Hörður Sveinsson 85.), Guðmundur Steinarsson (Magnús Þorsteinsson 72.)