Fréttir

Knattspyrna | 23. ágúst 2004

Tap gegn ÍBV í markaleik

Það var fátt um fína drætti hjá Keflavíkurliðinu á sunnudagskvöldið þegar liðið steinlá gegn fersku liði ÍBV, 2-5.  Eyjamenn voru einfaldlega mun sterkari í leiknum, börðust af krafti og léku vel.  Okkar menn náðu sér aldrei á strik og í þau skipti sem liðið sótti að marki gestanna af einhverjum krafti var heppnin ekki með þeim.  Ian Jeffs skoraði tvö mörk fyrir ÍBV og þeir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Einar Þór Daníelsson og Bjarnólfur Lárusson eitt hver.  Það var Hörður Sveinsson sem náði að minnka muninn í 1-2 í upphafi síðari hálfleiks með glæsilegu marki; Hörður tók boltann viðstöðulaust utarlega í vítateignum og sendi hann með þrumuskoti efst í markhornið.  Guðmundur Steinarsson minnkaði muninn aftur í 2-4 með marki beint úr hornspyrnu og er það reyndar í annað sinn sem Guðmundi tekst að skora beint úr horni í leik í efstu deild.


Ingvi Rafn með boltann; Atli Jóhannsson sækir að honum
en Eyjamenn voru sjaldan langt undan í leiknum.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)

Eftir leikinn er Keflavík í 5. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 15 leiki en KR-ingar sem taka á móti Grindavík í kvöld eru með 20 stig.  Með sigrinum náðu Eyjamenn 3. sætinu og eru með 25 stig.  Næsti leikur okkar er útileikur gegn ÍA sunnudaginn 29. ágúst kl. 18:00.