Fréttir

Knattspyrna | 10. ágúst 2010

Tap gegn KR

Það vantaði ekki góða veðrið þegar Keflavík mætti KR á Sparisjóðsvellinum í 15. umferð Pepsí-deildarinnar.  KR sigraði í hörkuleik 0-1 með marki frá Kjartani Henry Finnbogasyni.  Keflvíkingar hafa því ekki enn náð að vinna leik á nýjum Sparisjóðsvellinum.

Keflavík mætti með sama byrjunarlið og vann Fylki sl. fimmtudag nema hvað að Lasse Jörgensen var kominn í markið vegna meiðsla Ómars. Ánægjulegt var að sjá Hauk Inga Guðnason koma inn á þegar um tíu mínútur voru eftir og vonandi á hann eftir að koma með ferskleika í sóknina hjá Keflavík í komandi leikjum.

Leikurinn var jafn til að byrja með og liðin þreifuðu fyrir sér.  Guðmundur Steinarsson átti mikið þrumuskot á 18. mínútu sem stefndi í samskeytin en Lars í marki KR varði stórkostlega.  Bæði lið komust í hálffæri og það var svo á 42. mínútu að Kjartan Henry skoraði fyrir KR og kom þeim yfir.  Staðan í hálfleik var 0-1.

Í seinni hálfleik kom Keflavík sterkara til leiks og náðu nokkrum hálffærum en ekkert gekk upp.  Willum fækkaði í vörninni og bætti í sóknina en allt kom fyrir ekki.  KR fékk hættulegar skyndisóknir í restina en Lasse vel á verði.  Það er með ólíkindum hvað Keflavík gengur illa sóknarlega, bara með ólíkindum.  Nú fer hver að verða síðastur að bæta þar úr og vonandi kemur Haukur Ingi með nýtt blóð í sóknarleikinn í næstu leikjum.

Næsti leikur er útileikur gegn Selfossi fimmtudaginn 19. ágúst kl. 19:15.

  • Leikurinn var 89. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild en KR er einmitt það lið sem við höfum oftast mætt í deildinni.  KR-ingar hafa nú unnið 30 leiki og Keflavík 29 en jafntefli hefur orðið í 27 leikjum.  Markatalan er 124-135 fyrir KR.
     
  • Keflavík tapaði öðrum heimaleiknum í röð gegn KR en þar áður hafði liðið ekki tapað í fimm heimaleikjum gegn KR-ingum .
      
  • Lasse Jörgensen var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í sumar eftir að hafa komið inn á gegn Fylki.  Haukur Ingi Guðnason lék sinn fyrsta leik á þessu keppnistímabili þegar hann kom inn á undir lok leiksins.
       
  • Keflavík hefur nú leikið fjóra leiki á "nýja" Sparisjóðsvellinum og enn ekki sigrað.  Tvö jafntefli og tvö töp er afraksturinn og nú eru aðeins þrjú tækifæri eftir í sumar til að vinna heimasigur í Keflavík.
            

Fótbolti.net
,,Þeir skoruðu eitt og við ekkert," sagði Willum Þór Þórsson aðspurður hverju hann gæti kennt um 0-1 tap gegn KR í kvöld en í kjölfarið var hann spurður út í sóknarleik liðsins sem menn eru ekki sáttir við í ár í samanburði við síðustu ár.

,,Bíddu eigum við að ræða leikinn eða eigum við að ræða fortíðina?" svaraði Willum ósáttur við umræðuefnið.

,,Það sem helst að í dag er að við skoruðum ekki mark, en við sköpuðum færi og áttum ágætis sóknir. En það hefur verið sagan okkar í sumar að við höfum ekki skorað mörk, en við höfum náð mörgum krossum. Ef þú skoðar tölfræðina og vinnur heimavinnuna þína þá sérðu að við erum að skjóta álíka mikið á markið og toppliðin í deildinni. Það sem er augljóst mál er að við höfum ekki fundið þá lausn að reka endahnútinn á sóknirnar."

Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar komu mun sprækari til leiks í síðari hálfleik og voru til alls líklegir. Heimamenn sóttu og sóttu án árangurs á meðan að gestirnir beittu mishættulegum skyndisóknum.
Óskar Örn átti frábæran sprett í uppbótartíma leiksins og slapp einn í gegnum vörn heimamanna en Lasse Jörgensen varði glæsilega í markinu. Leikurinn rann út í sandinn og KR-ingar halda áfram sigurgöngu sinni undir stjórn Rúnars Kristinssonar á meðan Keflvíkingar leitast um eftir fyrsta sigrinum á nýja grasinu.
Lasse 7, Guðjón 6, Alen 6, Bjarni 5 (Haukur Ingi -), Haraldur 6, Einar Orri 5 (Hörður 5),  Hólmar Örn 5, Jóhann Birnir 6, Magnús Sverrir 5 (Paul 6), Magnús Þórir 5, Guðmundur 6.

Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar hafa hinsvegar verið einskonar "jó-jó" þetta tímabil. Þeir sýndu gríðarlegan karakter og lögðu Fylki á útivelli í síðustu umferð en eiga í einhverju basli með að finna sinn takt á heimavelli. Spurning hvort þeir færi sig aftur á Njarðvíkurvöllinn þar sem þeir höluðu inn 7 stig í þremur leikjum en þeir hafa aðeins náð í 2 stig í fjórum leikjum á Sparisjóðsvellinum.
M: Guðjón, Haraldur, Jóhann Birnir, Guðmundur.

Víkurfréttir /VF.is
Síðari hálfleikurinn var gjörólíkur þeim fyrri. Keflvíkingar voru miklu sterkari og sóttu stíft að marki gestanna. Á 56. mínútu kom glæsileg sending á Alen Sutej í teig gestanna. Alen stökk upp í boltann en skallinn var ónákvæmur og fór í kolvitlausa átt, dauðafæri þar sem KRingar sluppu með skrekkinn. Keflvíkingar áttu nokkur hættuleg færi í viðbót en tókst ekki að nýta neitt þeirra og því lauk leiknum með 0-1 sigri KR.
 

Pepsi-deild karla, Sparisjóðsvöllurinn, 8. ágúst 2010
Keflavík 0

KR 1 (Kjartan Henry Finnbogason 42.)

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson (Haukur Ingi Guðnason 82.), Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Paul McShane 50.), Einar Orri Einarsson (Hörður Sveinsson 68.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Brynjar Örn Guðmundsson, Bojan Stefán Ljubicic.
Gult spjald: Haraldur Freyr Guðmundsson (65.).

Dómari: Örvar Sær Gíslason.
Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Viðar Helgason.
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir.




Baráttan í algleymingi en boltinn týndur.
 

Haukur Ingi kom inn á undir lokin við mikla ánægju viðstaddra.