Fréttir

Tap gegn KR í fyrsta heimaleiknum
Knattspyrna | 13. maí 2013

Tap gegn KR í fyrsta heimaleiknum

Keflavík náði sér ekki á strik í fyrsta heimaleik sínum í Pepsi-deildinni og tapaði 0-2 fyrir KR á Nettó-vellinum.  Það var Baldur Sigurðsson sem kom gestunum yfir eftir um hálftíma leik og Baldur var aftur á ferðinni í byrjun seinni hálfleiks og kom KR tveimur mörkum yfir.  Okkar mönnum tókst ekki að laga stöðuna þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir og tapið staðreynd.

Næsti leikur er útileikur gegn nýliðum Víkings á Ólafsvíkurvelli fimmtudaginn 16. maí kl. 19:15.

Í myndasafninu eru myndir frá leiknum gegn KR og að þessu sinni var það Jón Örvar Arason sem mundaði myndavélina.

Leikskýrsla á KSÍ.is

  • Þetta var 94. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild.  KR-ingar hafa nú unnið 33 leiki en Keflavík 32 og 29 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 128-145 fyrir KR.
     
  • Keflavík hefur nú tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni en það gerðist síðast árið 1999.  Þá var liðið einnig án stiga og með markatöluna 1-4 eftir tvær umferðir og reyndar var það Zoran Daníel Ljubicic sem hafði þá gert eina mark liðsins!  Liðið vann reyndar í 3. umferðinni og lauk keppni í 8. sæti deildarinnar sem var þá skipuð tíu liðum.
     
  • Andri Fannar Freysson kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.
     
  • Eins og áður kom fram skoraði Baldur Sigurðsson bæði mörk KR í leiknum en hann lék auðvitað með Keflavík á árunum 2005-2007.  Síðan Baldur gekk til liðs við KR árið 2009 hefur hann skorað fimm mörk í níu leikjum gegn Keflavík í efstu deild auk þess að skora mark í einum bikarleik gegn okkur.  Baldur skoraði tvívegis fyrir Keflavík gegn KR á sínum tíma og annað þeirra marka kom í úrslitaleik bikarsins árið 2006.