Tap gegn KR í Landsbankadeild kvenna
Í gær áttust Keflavík og KR við í 10. umferð Landsbankadeildar kvenna. Fyrri leikur liðanna á KR-velli var hin mesta skemmtun og endaði með 5-4 sigri KR í hörkuleik. Ekki var það sama upp á teningnum í gær, KR sigraði 0-3 og er skemmst frá því að segja að Keflavíkurliðið var ekki alveg tilbúið í þennan leik. Þó veðurguðirnir hafi verið í óvenju góðu skapi og góður völlur hafi verið til staðar.
Í fyrri hálfleik var nokkurt jafnræði með liðunum og voru liðin bæði við það að komast inn fyrir varnir andstæðinganna en skorti herslumuninn. Á 40. mínútu fékk Hólmfríður Magnúsdóttir sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur og skoraði fyrsta mark KR, 0-1. Þannig var staðan í hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst með sama barningnum og reyndu Keflavíkurstúlkur að bæta í en höfðu ekki nógu mikla áræðni til að brjóta vörn KR á bak aftur. Annað mark KR gerði Hólmfríður Magnúsdóttir á 50. mínútu og það þriðja varamaðurinn Margrét Þórólfsdóttir á 77. mínútu. Þetta urðu lokatölur leiksins og Keflavík situr enn sem fastast í 5.sæti deildarinar.
Þessi leikur var ekki sú skemmtun sem flestir áttu von á en ekki er öll nótt úti. Liðið verður að taka sig saman í andlitinu og mæta bara grimmari í næstu leiki.
Næsti leikur liðsins er n.k. föstudag þegar liðið sækir Íslandsmeistara Breiðabliks heim í VISA-bikarnum og hefst hann kl. 19:15 á Kópavogsvelli. Næsti leikur í Landsbankadeildinni er gegn Stjörnunni 2. ágúst kl.19:15 á Keflavíkurvelli.
Keflavík: Þóra Reyn, Inga Lára, Linda (Birna Marín 67.), Ólöf Helga (Eva 78.), Elísabet Ester, Guðný Petrína, Lilja Íris, Karen Penglase (Karen Sævars 81.), Danka, Nína Ósk, Vesna
Varamenn: Anna, Sonja, Guðbjörg, Donna
ÞÞ
Úr leiknum á Keflavíkurvelli.
(Mynd: Þorgils / Víkurfréttir)