Fréttir

Knattspyrna | 28. febrúar 2005

Tap gegn Stjörnunni

Ekki gekk ferð meistaraflokks kvenna í Garðabæinn vel en þriðji leikur liðsins við Stjörnuna endaði með öruggum sigri heimaliðsins.  Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en þó var Stjarnan komin með vænlegt forskot í hálfleik, 3-0.  Keflavík saknaði nokkurra af sínum eldri og reyndari leikmönnum.  Því voru það ungu stelpurnar sem fengu að spreyta sig og var þessi leikur dýrmæt reynsla í bankann hjá þeim.  Leikurinn var spilaður á góðum gervigrasvelli Stjörnunnar og var hann klassískur „vorleikur“.  Gekk Keflavíkurliðinu illa að halda boltanum innan liðsins lengi vel og settu Stjörnustelpur önnur þrjú mörk í seinni hálfeik.  Það var ekki laust við að Keflavík gerði Stjörnunni oft of auðvelt fyrir en það var margt jákvætt í leik Keflavíkurliðsins og þá sérstaklega framganga ungu stelpnanna úr 3. flokki.  En gott er að nota leiki Faxaflóamóts og Deildarbikars sem undirbúningsmót og láta töp eða sigra ekki hafa „mikil“ áhrif á sig.  Næsti leikur Keflavíkur verður næsta laugardag, 5.mars, gegn Breiðablik kl.11:00 í Reykjaneshöllinni.
 
Keflavík: Mist, Elísabet Ester, Björg Ásta, Thelma, Hjördís, Helena, Ásdís, Eva, Hrefna, Birna og Hansína.
Varamenn (allir komu inn á): Sonja, Hildur, Karen, Alexandra