Tap gegn Val
Valsmenn komu í heimsókn í Reykjaneshöllina mánudaginn 14. janúar og léku æfingaleik við okkar menn. Keflavík tefldi fram mjög ungu liði í leiknum gegn sterku liði Vals sem geisluðu af sjálfstrausti eftir að hafa melt Íslandsmeistaratitil seinasta tímabils í allan vetur. Strax á upphafsmínútum tóku Valsmenn leikinn í sínar hendur og skoruðu fljótlega fyrsta markið. Í kjölfarið fylgdu þó tvö góð færi Keflavíkur til þess að jafna leikinn. Fyrst átti Redo skot í stöng í upplögðu færi og nokkrum mínútum síðar átti Sigurbjörn skot örfáum sentímetrum frá stönginni en framhjá. Þá settu Valsmenn í fluggírinn og skoruðu þrjú mörk fyrir hlé og kláruðu leikinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Þessi fyrsti æfingaleikur undirbúningstímabilsins var skemmtileg prófraun á nokkra af þeim ungu strákum sem æfa með meistaraflokki og 2. flokki og sáum við í fyrsta sinn til þeirra í leik með Keflavík. Ekki ónýtt að fá að spila gegn sjálfum Íslandsmeisturunum í sínum fyrsta leik. Þar með ætti helsta stjörnuglýjan að vera farin og strákarnir mæti ákveðnari til leiks næst.
Leikmenn sem tóku þátt í leiknum: Ómar, Guðjón, Óttar, Viktor Gísla, Nicolai, Brynjar, Garðar Eðvalds, Guðmundur, Sigurbjörn, Bessi, Arnar Skúli, Redo, Magnús Þorsteins, Einar, Fannar Óli, Högni, Hafsteinn.