Tap gegn Valletta
Það voru niðurlútir Keflvíkingar sem gengu af vellinum í Valletta eftir slæmt 3-0 tap í Evrópukeppninni í kvöld. Valletta var sterkari heilt yfir en sigur þeirra var þó of stór.
Keflavík lék undir pari í kvöld og sjónvarpsstöðvar hér á Möltu gefa sínu liði 5 stjörnur af 5 fyrir sinn leik. Leikurinn byrjaði þokkalega og það tók menn tíma að átta sig á gervigrasinu og hitanum en hitinn var 30 gráður þegar leikurinn byrjaði. Valletta skoraði á 24. minútu eftir herfileg mistök okkar manna; sóknarmaður þeirra komst einn inn fyrir og Lasse bjargaði vel og frákastið þeirra, 1-0. Eftir markið komu okkar menn meira inn í leikinn og áttu ágætis sóknir. Magnús Sverrir með gott skot rétt framhjá og þrisvar vorum við að prjóna okkur í gegn um vörn þeirra en það vantaði herslumunin. Staðan 1-0 í hálfleik og við vorum ekki langt frá þeim.
Á 47. mínútu var brotið á Magnúsi Sverrir innan teigs og allir voru vissir um að vítaspyrna yrði dæmd, þar á meðal heimamenn, en dómarinn gaf Magga gult fyrir leikaraskap sem var fáranlegt. Fljótlega á eftir eða á 50. minútu skoraði Valletta annað mark sitt og þótti mönnum mikil rangstöðulykt af því marki. Keflavík sótti mikið eftir þetta og fengu ágætis tækifæri að skora en það lá ekki fyrir okkur í þetta sinn. Magnús Sverrir fór fyrir okkar mönnum og stóð sig vel og var óheppinn að skora ekki. Valletta menn slátruðu svo leiknum á 71. mínútu og komust í 3-0 sem okkur þótti ekki sanngjarnt. Eftir þetta komst Magnús Sverrir í færi og Hörður átti skalla í all þokkalegu færi. Leikurinn fjaraði út og 3-0 tap niðurstaðan.
Þetta gefur alls ekki rétta mynd af getu munum þessara liða. Þetta er bara einn dagur, einn leikur, sem ekkert gengur upp hjá okkur. Við eigum að geta mun betur en við sýndum í þessum leik og ég veit fyrir víst að liðið kemur brjálað til leiks í seinni leiknum heima á fimmtudaginn kemur. Það er erfitt að pikka einhverja leikmenn út en ég verð að minnast á leik Magnúsar Sverris sem var fantagóður. Vissulega er lið Valletta gott en innanborðs þar eru fjórir klassa leikmenn á borð við Jordi Cruyff og fleiri. Eitt er víst að við erum ekki dottnir út heldur munum við selja okkur dýrt í heimaleiknum og með góðum stuðningi getum við farið áfram. Vissulega er erfitt að vinna upp 3-0 tap, en það er hægt. Já, það er svo sannanlega hægt.
Sjáumst á sunnudaginn gegn Þór í bikarnum og svo á fimmtudag gegn Valletta.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni, Alen Sutej, Bjarni Hólm, Nicolai Jörgensen, Magnús Sverrir, Jón Gunnar (Magnús Þórir 72.), Einar Orri, Brynjar Örn (Stefán Örn 83.) Hörður Sveins og Símun Sam.
Varamenn: Árni Freyr, Tómas Karl, Magnús Þór, Viktor Guðna og Þorsteinn Atli.
Byrjunarliðið gegn Valletta.
Jordi og Jón Gunnar í baráttunni.
Magnús Sverrir lætur vaða.