Tap hjá stelpunum
Keflavík lék sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna þetta sumarið þegar Fjölnir kom í heimsókn á Nettó-völlinn. Það er skemmst frá því að segja að gestirnir unnu öruggan sigur en lokatölur urðu 6-0. Erla Dögg Aðalsteinsdóttir og Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir skoruðu snemma leiks og Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Fjölnis, gerði tvö mörk úr vítaspyrnum. Þórhildur Svava Einarsdóttir og Íris Ósk Valmundsdóttir bættu svo tveimur mörkum við undir lokin.
Okkar stelpur mega eiga það að þær lögðu sig fram en máttu sín lítils gegn öflugu Fjölnisliði sem er spáð góðu gengi í 1. deildinni í sumar.
Næsti leikur er útileikur gegn Grindavík mánudaginn 3. júní kl. 20:00.
-
Þær Gná Elíasdóttir, Una Margrét Einarsdóttir, Marín Rún Guðmundsdóttir, Sólveig Lind Magnúsdóttir, Salome Pearl Beard og Berta Svansdóttir léku allar sinn fyrsta deildarleik fyrir Keflavík. Ekki var meðalaldurinn hár en Sólveig er 17 ára, Salome er 16 ára, Berta og Marín Rún eru 15 ára og Gná og Una Margrét eru aðeins 14 ára gamlar.
- Íris Björk Rúnarsdóttir lék sinn 50. deildarleik fyrir Keflavík en hún lék fyrst með meistaraflokki árið 2007. Af þessum leikjum hafa 29 verið í efstu deild en 21 leikur í B-deildinni.