Tap hjá stelpunum gegn ÍBV
Stelpurnar í meistaraflokki kvenna tóku á móti ÍBV í æfingaleik í Reykjaneshöll á föstudaginn. ÍBV stúlkur byrjuðu leikinn mun betur og voru heimstúlkur hálf feimnar við Pepsi deildar liðið í upphafi. ÍBV komst í 0 - 1 strax á 7 mín. leiksins. Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn þá komu Keflavíkurstúlkur sér vel inn í leikinn og sóttu oft hart að marki gestanna og fengu m.a. dauðafæri á 44 mín. en skot Anitu Lindar fór í stöngina. Staðan í hálfleik var því 0 - 1 fyrir gestina frá Eyjum. Í seinni hálfleik var lengstum jafnræði með liðunum og áttu heimastúlkur nokkur mjög góð færi en markvörður gestanna varði oft á tíðum stórkostlega. Eyjastúlkur komust í 0 - 2 á 57 mín. og settu svo 3 mörk til viðbótar á 70 mín, 87 mín og 91 mín. Þrátt fyrir 0 - 5 tap spiluðu Keflavíkurstelpurnar oft á tíðum glimrandi vel og gefa lokatölurnar ekki alveg rétta mynd af gangi leiksins.
Lið Keflavíkur var þannig skipað: Auður Erla (m) - Ólöf, Eva Lind (Íris), Kristrún (Guðrún Lísa), Þóra Kristín - Ljidona, Brynja, Una (Katla) - Sólveig, Birgitta (Sveindís), Anita Lind (Margrét).
Næsti leikur hjá Keflavíkurstúlkum verður n.k. föstudag í Faxaflóamótinu gegn Hvíta Riddaranum, leikið verður í Reykjaneshöll kl. 20:20.