Tap í Árbænum
Ekki tókst okkar mönnum að fylgja eftir góðri byrjun í Pepsi-deildinni og þurftu í staðinn að sætta sig við tap gegn Fylkismönnum á útivelli. Það voru tvær vítaspyrnur sem felldu Keflvíkinga í Árbænum í gærkvöldi þegar Fylkismenn sigruðu okkur 2-0. Fyrri vítaspyrnudómurinn á 49. minútu var gjöf Jóhannesar Valgeirssonar dómara til Fylkismanna. Algjörlega óskiljanlegur dómur en leikurinn var búinn að vera í jafnvægi fram að því. Svona geta leikir breyst af einni slæmri ákvörðun. Fylkismenn bættu svo við öðru marki úr vítaspyrnu á 70. mínútu.
Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. Bæði lið reyndu að ná yfirtökunum á miðjunni og áttum við vægast sagt erfitt með að finna menn í fætur. Jóhann Birnir átti hættulegasta færi hálfleiksins en ágætur skalli hans var vel varinn af Fjalari Fylkismarkverði. Hólmar Örn missteig sig illa í lok hálfleiksins og þar með var þátttöku hans í leiknum lokið og munar um minna. Síðari hálfleikurinn var betri af okkar hálfu, meiri barátta og einnig meiri leikgleði. Liðið skapaði sér nokkur hálffæri en okkar menn voru bara ekki nógu beittir og því fór sem fór. Ekki verður það tekið af Fylkismönnum að þeir áttu góðan dag og unnu sanngjarnan sigur. Þeir eru sterkir og vel spilandi og Óli Þórðar er að búa til gott lið í Árbænum. Eitt er víst að við verðum nú heldur betur að spýta í lófana og vera tilbúnir í leikinn gegn Val á mánudagskvöldið.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Símun Samuelsen, Hólmar Örn Rúnarsson (Einar Orri Einarsson 46.), Jón Gunnar Eysteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 75.), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 63.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Tómas Karl Kjartansson, Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Þór Magnússon.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir