Fréttir

Knattspyrna | 19. mars 2005

Tap í Deildarbikarnum

Í gærkvöldi, föstudagskvöld 18. mars, lék Keflavík gegn Þrótti Reykjavík í Deildarbikarnum í Reykjaneshöll.  Ekki gekk sem best og fyrsta tap Keflvíkinga í keppninni var staðreynd.  Leiknum lauk með tveimur mörkum Keflavíkur en Þróttarar skoruðu þrjú mörk. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og eftir aðeins 3 mínútur hafði Guðmundur Steinarsson skorað gott mark fyrir okkur en Halldór Hilmisson jafnaði leikinn um hæl á 5. mínútu.  Það voru Þróttarar sem tóku forystuna í leiknum á 69. mínútu með marki Dusan Jaic og bættu um betur á þeirri 75. með frekar ódýru marki Davíðs Loga Gunnarssonar.  Þar var síðan Guðmundur Steinarsson sem lagaði stöðuna á 89. mínútu með laglegu marki.  Guðmundur er að skora í hverjum leik og gefur það góð fyrirheit fyrir sumarið en fyrirliðinn hefur æft af miklum móð og verður vonandi sjóðheitur þegar deildin byrjar 16. maí.  Jónas Guðni kom inn á 67. mínútu og er óðum að jafna sig á meiðslum sem hafa hrjáð hann.  Þá spilaði Kjartan Einarsson seinni hálfleikinn en þessi fyrrum leikmaður Keflavíkur hefur æft að krafti með liðinu í vetur.  Eins kom Scott inná í seinni hálfleik.

Byrjunarliðið var skipað þessum leikmönnum: Ómar, Ásgrímur, Guðján Árni, Gestur, Þorsteinn Atli, Ólafur Ívar, Hólmar Örn, Ingvi Rafn, Guðmundur, Gunnar Hilmar og Atli Rúnar. ási