Tap í Frostaskjólinu
Keflvíkingar fóru enga frægðarför í Vesturbæinn í 7. umferð Pepsi-deildarinnar á sunnudagskvöld. Keflavík steinlá gegn sprækum KR-ingum, lokaúrslit 4-1. KR var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og Guðmundur Benediktsson skoraði fyrir heimamenn með skalla á 35. minútu og þannig var staðan í hálfleik. Seinni hálfleikur var mun betri af hálfu Keflvíkinga þó að KR-ingar ættu hættulegri færi. Það var Alen Sutej sem jafnaði leikinn fyrir Keflavík með góðum skalla á 72. minútu. Okkar menn sóttu talsvert eftir markið en það dugði ekki til því KR skoraði þrjú mörk á tólf minútna kafla og slátraði leiknum. Ekki var á bætandi fyrir Keflavík þegar Einar Orri fékk sitt annað gula og þar með rautt spjald rétt fyrir leikslok.
Keflavík var án Hólmars sem er meiddur, Guðjón Árni var í banni, Símun kom meiddur úr landsleik og spilaði ekki og svo er Sigurbergur einnig frá vegna meiðsla. Magnús Þór kom inn á og lék sinn fyrsta alvöruleik og óskum við honum til hamingju með það. Keflavík er sem stendur í 6. sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði FH.
Næsti leikur er í VISA-bikarnum á fimmtudaginn 18. júní gegn Einherja frá Vopnafirði. Sá leikur verður á Sparisjóðsvellinum og hefst kl 19:15. Enn er óvíst hvort þeir Haukur Ingi, Jóhann Birnir og Símun getið leikið vegna meiðsla og svo er Einar Orri í banni. En það á ekki að skipta máli því það eru hungraðir leikmenn sem hafa setið á bekkum sem vilja komast að og sanna sig. Svo kemur fyrirliðinn Guðjón Árni að sjálfssögðu inn í hópinn.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Nicolai Jörgensen, Bjarni Hólm Aðalsteinsson fyrirliði, Alen Sutej, Brynjar Örn Guðmundsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Bojan Stefán Ljubicic 41.) Hörður Sveinsson (Magnús Þór Magnússon 88.), Haukur Ingi Guðnason (Stefán Örn Arnarson 68).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þórir Matthíasson, Þorsteinn Atli Georgsson, Símun Samuelsen.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með þeirra leyfi.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var skiljanlega óánægður með 4-1 tap sinna manna gegn KR í 7. umferð Pepsi-deildar karla í Vesturbænum í kvöld. Hann er óánægður með frammistöðu liðsins í heild sinni og var að auki ósáttur með að hafa ekki getað nýtt sér það betur þegar þeim tókst að koma til baka.
„Við lékum ekki nógu vel og heilt yfir er ég ósáttur með frammistöðuna. Við vorum heppnir að vera einungis einu marki undir í hálfleik en svo náum við að komast inn í leikinn og valda þeim usla inni í vítateig og það endar með að við jöfnum metin. Þá hefði ég viljað sjá ennþá markvissari sókn eftir það og við hefðum getað komist í 2-1 en það gekk ekki eftir,“ sagði Kristján við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Við hefðum kannski mátt skora eitt til tvö mörk í viðbót en við áttum greinilega ekki inni fyrir því. Ég segi að þetta hafi verið sanngjarn sigur hjá KR-ingum en hann var ljótur. Það er ljótt að tapa 4-1 og þetta hefur ekki gerst lengi. Okkur líður illa með þetta tap.“
„Það þýðir ekkert að dvelja við þetta en við munum aðeins ræða þetta á morgun og svo eru það bara næstu verkefni.“
Keflvíkingar eru nú með 11 stig eftir sjö umferðir, sjö stigum á eftir toppliði FH. Þessi leikur hefði þurft að vinnast til að liðið væri áfram í sterkri toppbaráttu en Kristján segir að hans menn séu ekkert að pæla í slíku.
„Við höfum ekki verið að tala um neitt slíkt á mótinu. En við erum í efri hlutanum og við ætlum að vera áfram þar. Nú lögum við bara það sem fór úrskeiðis því við ætlum að ná okkur í stig í næstu leikjum,“ sagði Kristján að lokum við Fótbolti.net.
Hitað upp fyrir leik.
Niko og Prinsinn.
Alen skorar með góðum skalla.