Tap í fyrsta heimaleiknum
Ekki tókst okkar mönnum að fylgja eftir góðum sigri í síðustu umferð þegar þeir tóku á móti Stjörnumönnum í fyrsta heimaleik sumarsins. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins en það gerði Halldór Orri Björnsson úr vítaspyrnu í upphafi leiks.
Næsti leikur er útileikur gegn ÍA á Akranesi sunnudaginn 20. maí kl. 19:15.
-
Leikurinn var 15. leikur Keflavíkur og Stjörunnar í efstu deild. Þetta var 4. sigur Stjörnunnar, Keflavík hefur unnið sex og fimm hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 48-39 fyrir Keflavík.
-
Þetta var fyrsti deildarsigur Stjörnunnar í Keflavík síðan 1996 en sá leikur fór einnig 0-1. Síðan höfðu liðin leikið fimm leiki í efstu deild og einn í þeirri næstefstu án þess að Stjarnan næði að sigra.
-
Keflavík tefldi fram sama byrjunarliði þriðja leikinn í röð í upphafi móts.
-
Magnús Sverrir Þorsteinsson kom inn á sem varamaður og lék í fyrsta sinn í sumar en hann hefur verið að jafna sig af meiðslum.
Fótbolti.net
Keflvíkingar voru ósáttir með vítaspyrnuna sem þeir fengu á sig í 1-0 tapinu gegn Stjörnunni í kvöld. Stjörnumenn skoruðu eina markið úr vítaspyrnu sem Kristinn Jakobsson dæmdi snemma leiks eftir að Kennie Chopart féll eftir samskipti sín við Ómar Jóhannsson.
Ómar segir sjálfur á Twitter í kvöld að um ódýran vítaspyrnudóm hafi verið að ræða.
,,Flott mæting í kvöld enda sól og blíða í Kef, verst að geta ekki launað með stigum, erfitt þegar hinir fá 1 í forgjöf @Keflvikingur #softpen," skrifaði Ómar á Twitter.
Kristinn Jakobsson dæmdi einnig leik Keflavíkur og Stjörnunnar í fyrra þar sem Magnús Sverirr Þorsteinsson varði með höndum á línu en slapp með skrekkinn.
Það atvik var meðal annars rætt í viðtali við Jóhann Laxdal leikmann Stjörnunnar í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í dag en Guðmundur Steinarsson framherji Keflvíkinga ýjar að því á Twitter að umræða í fjölmiðlum hafi haft áhrif í leiknum í kvöld.
,,Klókt hjá silfurskeiðinni að nota miðlana til að panta eitt og annað. Fer í reynslubankann. #vitumnúnahvernigþettavirkar," skrifaði Guðmundur á Twitter.
Fréttablaðið / Vísir
Stjörnumenn voru miklu betri nær allan leikinn. Þeir sóttu án afláts í fyrri hálfleik á meðan Keflvíkingar komust vart yfir miðju. Stjörnumenn hefðu klárlega getað skorað fleiri mörk þá.
Eina markið kom úr öruggri vítaspyrnu Halldórs Orra. Vítið var dæmt á Ómar, markvörð Keflvíkinga. Kennie Chopart komst þá í gegn, rak tána í boltann og fór síðan í Ómar. Víti dæmt og Ómar fékk gult.
Keflvíkingar unnu sig aðeins inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Beittu stungusendingum á Guðmund Steinarsson sem var skynsamlegt enda varnarlína Stjörnunnar ekki í miklum takti.
Ómar 6, Grétar Atli 4 (Magnús Sverrir -), Jóhann Ragnar 5, Gregor 6, Haraldur 6, Einar Orri 5, Arnór Ingvi 6, Frans 4, Jóhann Birnir 6, Hilmar Geir 5 (Bojan -), Guðmundur 5 (Sigurbergur 5).
Morgunblaðið / Mbl.is
Stjörnumenn fögnuðu sínum fyrsta sigri í Pepsideildinni á þessari leiktíð suður með sjó í gærkvöldi þegar þeir höfðu betur gegn Keflvíkingum í norðangarra. Það var glókollurinn Halldór Orri Björnsson sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu og leit markið dagsins ljós eftir fimm mínútna leik. Vítaspyrnan var dæmd á Ómar Jóhannsson, markvörð Suðurnesjaliðsins, og var hann allt annað en ánægður með dóm Kristins Jakobssonar, sem kom mikið við sögu í leik liðanna á sama stað fyrir rúmu ári. Kristinn hélt því fram að Ómar hefði brotið á danska miðjumanninum Kenny Chopart.
»Þetta var aldrei víti. Ég fór út á móti manninum og reyndi að gera mig breiðan. Hann náði að vippa boltanum yfir mig en hann sparkaði síðan í mig og féll í teignum. Þetta er ódýrasta vítaspyrna sem ég hef fengið dæmda á mig og hef ég nú spilað nokkuð marga leiki,« sagði Ómar við Morgunblaðið.
M: Gregor, Haraldur Freyr, Einar Orri, Jóhann Birnir.
Víkurfréttir / VF.is
Kuldaboli beit í kinnar þeirra áhorfenda sem lögðu leið sína á Nettó-völlinn í Keflavík í kvöld þar sem fyrsti leikur þriðju umferðar Pepsi-deildar karla fór fram. Keflvíkingar mátt sætta sig við 1-0 tap gegn Stjörnunni eftir mikinn baráttuleik sem einkenndist af hörðum tæklingum og návígjum.
Eina mark leiksins kom á 5. mínútu leiksins. Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga kom í úthlaup á móti Kennie Chophart sem var sloppinn einn í gegn. Kennie pikkaði boltanum fram hjá Ómari og þeir lentu saman, vítaspyrna var dæmd og Halldór Orri Björnsson skoraði örugglega úr henni. Stjörnumenn voru beittari í upphafi leiks og Keflvíkingar voru augljóslega pirraðir eftir vítaspyrnudóminn. Heimamenn vinna sig svo inn í leikinn og Guðmundur Steinarsson hefði átt að jafna leikinn fyrir Keflvíkinga en hann komst einn inn fyrir vörn Stjörnumanna en nýtti færi sitt afar illa.
Keflvíkingar hefðu með heppni getað fengið stigin úr leiknum en eins og áður segir var þetta fyrst og fremst baráttuleikur þar sem mikið var um miðjumoð. Þar naut Einar Orri Einarsson sín vel og hann var harður í horn að taka á miðsvæðinu. Arnór Ingvi var sprækur framan af leik en annars var enginn áberandi góður á vellinum í dag.
433.is
,,Alltaf súrt að tapa," sagði Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur eftir 0-1 tap gegn Stjörnunni í 3. umferð Pepsi deildar karla.
Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu á 5. mínútu sem Zoran er ekki sáttur með.
,,Við fengum alltof ódýrt víti á móti okkur, mér fannst þetta aldrei vera vera vítaspyrna. Við áttum að vítaspyrnu, Mér fannst Kiddi ekki eiga góðan leik."
Ómar 6, Grétar Atli 4 (Magnús Sverrir -), Jóhann Ragnar 6, Gregor 6, Haraldur 6, Einar Orri 5, Arnór Ingvi 6, Frans 5, Jóhann Birnir 6, Hilmar Geir 6 (Bojan -), Guðmundur 6 (Sigurbergur 5).
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 14. maí 2012
Keflavík 0
Stjarnan 1 (Halldór Orri Björnsson víti 5.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 78.), Jóhann R. Benediktsson, Gregor Mohar, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Bojan Stefán Ljubicic 78.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson (Sigurbergur Elísson 69.).
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Viktor Smári Hafsteinsson, Magnús Þór Magnússon, Denis Selimovic.
Gul spjöld: Ómar Jóhannsson (4.), Gregor Mohar (14.), Guðmundur Steinarsson (21.), Jóhann Birnir Guðmundsson (45.), Einar Orri Einarsson (60.).
Dómari: Kristinn Jakobsson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson.
Eftirlitsdómari: Eyjólfur Ólafsson.
Áhorfendur: 640.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason
Byrjunarlið Keflavíkur.
Menn klappa sér til hita...
Víti í byrjun leiks og ekki allir sáttir.
Sótt að marki gestanna en ekki vildi tuðran inn.