Tap í fyrsta leik
Keflavík tapaði fyrir Víkingum í fyrsta leik liðsins í Pepsi-deildinni þetta sumarið. Gestirnir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik en þar voru Davíð Örn Atlason og Igor Taskovic á ferðinni. Strax í upphafi seinni hálfleiks minnkaði Hörður Sveinsson muninn en nær komust okkar menn ekki og undir lok leiksins innsiglaði Ívar Örn Jónsson sigur Víkinga.
Næsti leikur er gegn FH á Kaplakrikavelli sunnudaginn 10. maí kl. 19:15.
-
Þetta var 45. leikur Keflavíkur og Víkings í efstu deild. Víkingur hefur nú unnið 16 leiki og Keflavík 22 en sjö leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 70-58 fyrir Keflavík.
-
Þetta var fyrsta tap Keflavíkur gegn Víkingi á heimavelli síðan 1983. Síðan höfðu liðin leikið 13 leiki í Keflavík í deild og bikar, tveimur þeirra lauk með jafntefli en Keflavík vann níu.
-
Hörður Sveinsson skoraði sitt 53. mark fyrir Keflavík í efstu deild í sínum 150. leik. Hann er nú fjórði markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild frá upphafi og nálgast Óla Þór Magnússon sem er þar þriðji með 57 mörk.
-
Richard Arends, Samuel Hernandez, Kiko Insa, Indriði Áki Þorláksson og Páll Olgeir Þorsteinsson léku allir sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.
-
Samuel og Kiko eru fyrstu Spánverjarnir sem leika fyrir Keflavík og Richard sömuleiðis fyrsti Hollendingurinn. Alls hafa nú 37 erlendir leikmenn leikið fyrir félagið á Íslandsmóti en þeir hafa komið frá 15 löndum.
-
Guðjón Árni Antoníusson lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild síðan árið 2011. Leikurinn var 156. leikur hans fyrir Keflavík í efstu deildinni og Guðjón er þar í 10. sæti yfir leikjahæstu leikmenn félagsins.
-
Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson og Alexander Magnússon voru ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla.
- Þetta var fyrsta tap Keflavíkur á heimavelli í fyrstu umferðinni frá árinu 2005. Þá tapaði liðið fyrir FH en það var einmitt fyrsti leikur liðsins undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar. Síðan hafði liðið leikið fjórum sinnum á heimavelli í fyrsta leik mótsins og unnið alla leikina.
Myndir: Jón Örvar Arason