Fréttir

Knattspyrna | 29. júní 2004

Tap í Grindavík

Keflavíkurliðið tapaði sínum þriðja leik í röð í Landsbankadeildinni þegar liðið tapaði 2-3 í Grindavík.  Eftir leikinn er liðið í 5.-7. sæti deildarinnar með 10 stig eins og KA og Grindavík.  Ljóst er að liðið þarf að rífa sig upp úr þessari lægð ef ekki á illa að fara og segja má að næsti leikur liðsins í deildinni, heimaleikur gegn Frömurum, ráði þar miklu um framhaldið.  Næsti leikur liðsins er hins vegar bikarleikurinn gegn Fram næsta mánudag á Laugardalsvelli.

Grindvíkingar náðu forystu í leiknum í gær á 25. mínútu þegar boltinn hrökk af Sreten og í markið eftir harða sókn heimamanna.  Á 38. mínútu lentum við 0-2 undir þegar Orri Freyr Óskarsson skoraði en Sreten bætti fyrir sjálfsmarkið rétt fyrir hlé og minnkaði muninn með góðu skallamarki.

Í seinni hálfleik sóttu okkar menn af krafti en tókst ekki að nýta sér yfirburðina og Óskar Örn Hauksson skoraði fyrir Grindavík þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.  Staðan því orðin slæm, Zoran skoraði skömmu fyrir leikslok en ekki kom jöfnunarmarkið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.


Hart barist í leiknum í Grindavík.
(Mynd:
Víkurfréttir)