Tap í markaleik á Skaganum
Það var líf og fjör á Skipaskaga þegar okkar menn mættu þar í 4. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 3-2 heimamönnum í vil í fjörugum leik. Gary Martin kom ÍA yfir eftir um tuttugu mínútna leik en Guðmundur Steinarsson jafnaði úr vítaspyrnu á 37. mínútu. Skagamenn komust aftur yfir þegar Ólafur Valur Valdimarsson skoraði á 64. mínútu en Arnór Ingvi Traustason jafnaði aftur á þeirri 73. með glæsilegu marki. Það var svo Garðar Gunnlaugsson sem skoraði sigurmark ÍA á lokamínútum með glæsilegu skoti.
Næsti leikur er heimaleikur gegn ÍBV í Pepsi-deildinni fimmtudaginn 24. maí kl. 19:15.
-
Leikurinn var 86. leikur Keflavíkur og ÍA í efstu deild. Þetta var 47. sigur ÍA, Keflavíkur hefur unnið 27 leiki og tólf hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 106-179 fyrir ÍA.
-
Guðmundur Steinarsson skoraði sitt fyrsta deildarmark í sumar og 75. markið fyrir Keflavík í efstu deild í 226 leikjum. Arnór Ingvi Traustason gerði sitt annað mark í sumar og fjórða markið í efstu deild í 22 leikjum.
-
Gregor Mohar og Einar Orri Einarsson gátu ekki leikið og tóku Magnús Þór Magnússon og Denis Selimovic stöður þeirra. Denis var í fyrsta skipti í byrjunaliði hjá Keflavík í efstu deild og Magnús Þór var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í sumar.
-
Hilmar Geir Eiðsson varð að fara af velli strax á 10. mínútu eftir að hafa fengið höfuðhögg.
Fótbolti.net
„Tilfinningin er ekki góð og það er alltaf slæmt að tapa.“ sagði Zoran Daniel Ljubicic þjálfari Keflvíkinga eftir tap á móti Skagamönnum í kvöld.
„Mér finnst við betra lið á vellinum. Við vorum að skapa færi og í stöðunni 2- 2 fengum við dauðafæri sem við áttum að klára en því miður og fengum alltof auðvelt mark á okkur á síðustu mínútu.“
„Mér finnst við spila mjög vel fyrir utan fyrstu mínútur í fyrri hálfleik og í fyrstu mínútum í seinni hálfleik En það vantar kannski smá heppni að klára. Við skorum tvö mörk á útivelli og þá á að duga fyrir eitt stig að minnsta kosti.“
„Þetta var ekki alvarlegt með Hilmar Geir sem betur fer en hann er búinn að vera mjög sterkur á kantinum og það sést greinilega að þegar hann fór útaf að við náðum ekki að loka það sem við eigum að gera.“
Fréttablaðið / Vísir
Keflavík átti margar góðar sóknir, var mun meira með boltann en það voru varamenn ÍA sem gerðu gæfumuninn. Dean Martin fór mikinn á hægri kantinum og bjó til þrjú dauðafæri með sendingum sínum frá hægri. Tvær þeirra voru framlengdar af samherja og skiluðu marki en eftir þá þriðju bjargaði Ómar Jóhannsson vel í markinu. Það var annar varamaður, Garðar Bergmann Gunnlaugsson, sem tryggði ÍA sigurinn með sínu fyrsta marki á tímabilinu eftir að Dean Martin og Gary Martin höfðu leikið hann uppi.
Leikurinn verðskuldaði sigurmark á loka mínútunni og má segja að heppnin hafi verið með ÍA. Keflavík hefði hæglega getað tryggt sér sigurinn því eftir að Ármann Smári Björnsson fór útaf meiddur var vörnin allt annað en traust en hún hafði verið mjög góð fram að meiðslum hans.
Ómar 5, Grétar Atli 4, Jóhann Ragnar 5, Magnús Þór 6, Haraldur 5, Denis 6, Arnór Ingvi 7, Frans 7, Jóhann Birnir 7, Hilmar Geir - (Magnús Sverrir 3), Guðmundur 6 (Sigurbergur 5).
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflavíkingar spiluðu ágætlega í gær og eru örugglega svekktir að hafa skorað tvö mörk á útivelli en ekki náð í stig þrátt fyrir það. Liðið spilar oft og tíðum flotta knattspyrnu og það kæmi á óvart ef liðið yrði í botnbaráttunni eins og því var spáð. Liðið hefði alveg átt skilið eitt stig í gær, en það er víst ekki spurt um slíkt þegar upp er staðið.
M: Jóhann R., Arnór Ingvi, Frans, Jóhann Birnir.
Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar höfðu ekki heppnina með sér á Skipaskaga þegar þeir töpuðu 3:2 fyrir heimamönnum í fjórðu umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í gær. Keflvíkingar jöfnuðu í tvígang og fengu dauðafæri til að komast í 2:3 en það tókst ekki og Skagamenn skoruðu sigurmarkið á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.
„Við lékum góðan fótbolta en það gaf okkur ekkert í þessum leik og það er slæmt. Við áttum skilið meira en þetta,“ sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn.
Skagamenn náðu forystu en Keflvíkingar fengu víti þegar langt var liðið á fyrri hálfleik sem Guðmundur Steinarsson skoraði úr af öryggi og þannig var staðan í hálfleik 1:1. Heimamenn komust í 2:1 en aftur jöfnuðu Keflvíkingar á 73. mínútu með flottu skoti frá Arnóri Ingva Traustasyni. Skömmu síðar fékk Arnór boltann fyrir fætur sér beint fyrir framan markið en á óskiljanlegan hátt tókst honum að skjóta framhjá. Grátlegt fyrir þennan unga leikmann sem hefur staðið sig mjög vel í upphafi móts og var mjög góður í þessum leik. Keflvíkingar fengu síðan ódýrt mark á sig á 90. mínútu og þurftu að bíta í það mjög svo súra epli að tapa leiknum sem þeir áttu alla möguleika á að vinna.
Keflvíkingar gáfu ekkert eftir og léku á heildina litið betri fótbolta en Skagamenn sem treystu mikið á langar spyrnur á kantana og inn í teig. Mörkin sem Keflavík fékk á sig voru í ódýrari kantinum ef svo má segja. Hlutirnir féllu með heimamönnum að þessu sinni. Arnór Ingi, Frans Elvars og Jóhann B. Guðmundsson voru bestu menn Keflavíkur.
433.is
Skagamenn tóku á móti Keflvíkingum í rjómablíðu hérna á Skipaskaganum í kvöld. Það er óhætt að segja að leikurinn hafi verið stórskemmtilegur og þeir fjölmörgu áhorfendur sem mættu á leikinn fengu helling fyrir sinn snúð.
Ómar 5, Grétar Atli 6, Jóhann Ragnar 6, Magnús Þór 6, Haraldur 5, Denis 6, Arnór Ingvi 7, Frans 7, Jóhann Birnir 5, Hilmar Geir - (Magnús Sverrir 4), Guðmundur 5 (Sigurbergur -).
Pepsi-deild karla, Akranesvöllur, 20. maí 2012
ÍA 3 (Gary Martin 21., Ólafur Valur Valdimarsson 64., Garðar Gunnlaugsson 90.)
Keflavík 2 (Guðmundur Steinarsson víti 37., Arnór Ingvi Traustason 73.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 10.), Denis Selimovic, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson (Sigurbergur Elísson 69.).
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Ásgrímur Rúnarsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Bojan Stefán Ljubicic, Daníel Gylfason.
Gul spjöld: Arnór Ingvi Traustason (31.), Denis Selimovic (76.), Grétar Atli Grétarsson (81.).
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Haukur Erlingsson.
Eftirlitsdómari: Ari Þórðarson.
Áhorfendur: 1786.
Myndir: Jón Örvar
Guðmundur skorar örugglega úr vítinu.
Hasar í vítateig Skagamanna.