Tap í þriðja leiknum gegn Blikum
Meistaraflokkur kvenna lék við Breiðablik á Keflavíkurvelli í gærkveldi og var þetta þriðji leikur liðanna í sumar. Fyrri leikirnir tveir hafa verið miklir baráttuleikir, báðir leiknir í Kópavogi 3-2 og 3-1, og verið tveir af betri leikjum sumarsins hjá Keflavík og varð engin breyting á því í leiknum í gær þó 0-1 tap væri staðreynd. Óhætt er að segja að veðrið hafi sett mark sitt í leikinn, rigning og farið að rökkva töluvert, sem þó var hin besta skemmtun.
Á 5. mínútu skoruðu Blikar eina mark leiksins eftir fyrirgjöf á fjærstöng og héldu eflaust margir að efsta lið deildarinnar kæmi til með að eiga náðuga stund suður með sjó og klára leikinn örugglega en raunin varð önnur. Keflavíkurliðið vann sig hægt og bítandi inn í leikinn. Þegar líða tók á leikinn fóru sóknir Keflavíkur að þyngjast og átti Keflavík þrumuskot fyrir utan teig sem Þóra Helgadóttir varði mjög vel. Bæði lið reyndu að setja upp hraðar sóknir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir markmaður greip mjög vel inn í í þau skipti sem Blikar settu pressu á mark Keflavíkur.
Seinni hálfleikur hófst með mikilli ákefð Keflavíkurliðsins sem ætlaði sér að jafna og klára leikinn. Áræðni og dugnaður einkenndi leik Keflavíkurliðsins. Keflavík lét hverja sóknina af annarri dynja á efsta liðið deildarinnar og réðu Blikar illa við fljóta Keflvíkinga. Enn og aftur spilar Keflavík sinn besta hálfleik í sumar gegn Blikum, í bikarleiknum fyrr í vikunni var fyrri hálfleikur eign Keflavíkur. Í gær var það seinni hálfleikur og verður að segjast að Blikar sluppu með skrekkinn í gær. Besta færi leiksins fékk Nína Ósk á 78. mínútu þegar hún komst ein inn fyrir vörn Blika og átti bara markmanninn eftir en skot hennar fór naumlega framhjá. Áfram hélt duglegt og vel spilandi lið Keflavíkur að þjarma að Blikum sem áttu fá svör. En svo fór sem fór og á 95. mínútu flautaði dómari leiksins leikinn af. Keflavík átti sannarlega meira skilið úr þessum leik og er komið mikið sjálfstraust í hópinn sem liðið verður að byggja á.
Keflavíkurliðið hefur verið með þá gullnu reglu að taka einn leik fyrir í einu og verður því haldið áfram. En með þeirri spilamennsku sem liðið hefur sýnt í síðustu fimm leikjum þá er liðið búið að stimpla sig vel inn í Landsbankadeildina þetta árið. Framundan eru erfiðir leikir sem krefjast mikillar vinnu og elju. Verður Keflavík að nota fríið, sem liðið fær fram að næsta leik sem verður gegn Íslandsmeisturum Vals 3. ágúst að Hliðarenda, vel til að laga það sem laga þarf og halda áfram á sömu braut.
Lið Keflavíkur: Þóra, Ásdís, Lilja, Björg, Sunna, Vesna, Hrefna (Jessica), Guðný, Nína, Ágústa (Donna), Ólöf
Varamenn: Steindóra, afmælisbarnið Hjördís, Claire, Donna og Jessica
Lilja Gunnarsdóttir átti góðan leik í vörn Keflavíkur í gær.