Tap í vítaspyrnukeppni
Keflvíkingar eru úr leik í Lengjubikarnum eftir tap gegn Fram í vítaspyrnukeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1. Fram komst yfir strax á 4. mínútu þegar Ívar Björnsson skoraði af stuttu færi og spurning með varnarleikinn þar. Mikil barátta var um miðjuna og ekkert gefið eftir í hörkuleik. Guðmundur Steinarsson jafnaði svo metin þegar 35 mínútur voru komnar á klukkuna með góðu skoti neðst í markhornið.
Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn vel og stjórnaði leiknum meira og minna. Keflavík átti að fá vítaspyrnu þegar augljóslega var brotið á leikmanni Keflavíkur fyrir framan mark Framara en ekkert dæmt og slakur dómari leiksins, Þorvaldur Árnason, var sá eini sem ekki sá brotið. Keflavík hélt áfram að sækja en ekkert gekk fyrir framan markið. Keflavík fékk svo dauðafæri í lok leiksins sem var klúðrað af meters færi og yfir. Framarar áttu sínar rispur sem enduðu allar í annars öruggum höndum Ómar Jóhannssonar. Baráttuleikur eftir 90 mínútur + framlengingu.
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram var svo rekinn af bekknum þegar hann kallaði dómarann “frosk“ en hélt svo áfram að stjórna liðinu fyrir aftan markið. Þorvaldur kom svo inn á leikvöllinn þegar leik var lokið og vítaspyrnukeppni var að hefjast og hélt áfram sínu starfi eins og ekkert hafi í skorist án þess að dómarinn gerði nokkrar athugasemdir.
Vítaspyrnukeppnin:
0-1 Hólmar Örn Rúnarsson
1-1 Samuel Tillen
1-2 Haraldur Freyr Guðmundsson
2-2 Jón Guðni Fjóluson
2-2 Einar Orri Einarsson lætur verja
3-2 Hlynur Atli Magnússon
3-3 Magnús Þórir Matthíasson
4-3 Daði Guðmundsson
4-3 Magnús Sverrir Þorsteinsson skýtur í slá
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Alen Sutej, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Guðjón Árni Antoníusson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Paul McShane (Einar Orri Einarsson 87.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Ómar Karl Sigurðsson 62.) (Bojan Lubicic 117.), Magnús Þórir Matthíasson og Guðmundur Steinarsson (Brynjar Örn Guðmundsson 77.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon og Sigurður Gunnar Sævarsson.
Myndir: Jón Örvar
Hasar við Fram-markið.
Gummi gerði markið.
Keflavík í hörkusókn en ekki vildi tuðran inn.
Og Keflavík í vörninni.
Áhorfendur fylgdust með af áhuga.
Einn á móti öllum.
Marki Gumma fagnað.