Tap og sigur hjá 4. flokki
4. flokkur kvenna lék í gær gegn Val á Iðavöllum og var leikið bæði í A- og B-liðum. Í leik A-liðanna byrjuðu Keflavíkurstelpur mjög vel fyrstu tíu mínutarnar og náðu forystu í leiknum á sjöundu mínútu með marki frá Helenu Rós. Eftir markið jafnaðist leikurinn nokkuð og fengu bæði lið nokkur góð tækifæri til að skora, það gerðu gestirnir eftir röð mistaka hjá okkur og staðan í hálfleik 1-1. Valsstúlkur fóru nú að láta meira að sér kveða enda fengu þær líka frið til að byggja upp spil. Þær tóku síðan forystu í leiknum 2-1. Um miðjan hálfleikinn fékk Freyja stungusendingu og komst ein á móti markmanni. Henni urðu ekki á nein mistök og afgreiddi knöttinn snyrtilega í markið og jafnaði. Þegar um fimm mínutur voru eftir af leiknum skoruðu síðan Valsstelpur sigurmarkið, 2-3.
4. flokkur kvenna, A-lið:
Keflavík - Valur: 2 - 3 (Helena Rós Þórólfsdóttir, Freyja Hrund Marteinsdóttir)
Stúlka leiksins: Freyja Hrund Marteinsdóttir
Í leik B-liðanna voru Keflavíkurstelpur betri allan leikinn og ekki spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi heldur hversu stór sigurinn yrði. Fyrsta markið leit dagsins ljós þegar Berta átti gott bogaskot utan af velli yfir markmanninn hjá Val og í netið. Guðrún Ólöf bætti síðan við marki og staðan í hálfleik því 2-0. Valstúlkur minnkuðu stöðuna í 2-1 en við vorum ekki lengi að svara með tveimur mörkum frá Guðrúnu og Eyrúnu og staðan orðin 4-1. Við urðum síðan fyrir því að skora í eigið mark áður en Guðrún fullkomnaði þrennu sína í leiknum. Lokastaðan 5-2 Keflavík í vil.
4. flokkur kvenna, B-lið:
Keflavík - Valur: 5 - 2 (Guðrún Ólöf Olsen 3, Berta Björnsdóttir, Eyrún Ósk Magnúsdóttir)
Stúlka leiksins: Guðrún Ólöf Olsen