Fréttir

Knattspyrna | 23. júlí 2005

Tap og sigur hjá 4. flokki

4. flokkur kvenna A-lið lék gegn Aftureldingu í vikunni.  Leikurinn fór fram á aðalleikvanginum í blíðskaparveðri.  Lið Afureldingar byrjaði leikinn á hápressu og áttu okkar stelpur í vök að verjast lengi framan af.  Gestirnir voru komnar í 2-0 eftir 18 mínútna leik og útlitið ekki gott.  En smátt og smátt unnum við okkur inn í leikinn og náði Guðrún að minnka muninn á 29. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum en okkur tókst mjög illa að halda framherja Aftureldingar niðri enda gerði hún okkur ansi erfitt fyrir.  Bæði var hún eldsnögg og líkamlega sterk þó ekki væri hún há í loftinu.  Enda fór það svo að hún kláraði þennan leik með því að bæta við tveimur mörkum fyrir leikslok og setti hún því öll mörk Aftureldingar í þessum leik.  Okkar stelpur voru ekki að spila neitt sérlega vel í þessum leik og í raun var eini munurinn á liðunum þessi framherji sem við réðum ekkert við.  Svona gerist þegar einhver einn leikmaður nær sér verulega á strik, getur sá/sú unnið leikinn fyrir sitt lið.

4. flokkur, A-lið: Keflavík - Afturelding: 1-4 (Guðrún Ólöf Olsen)
Keflavík:
Zohara, Ingibjörg, Laufey, Ólína, Helena, Sveindís, Fanney, Bagga, Eyrún, Íris, Guðrún, Ingunn, Ísabella, Elísa.


Þá lék B-lið 4. flokks gegn liði ÍA.  Loks náðu þær sér á strik og voru miklu betri í leiknum.  Stelpurnar sóttu ansi stíft að marki ÍA en boltinn vildi bara alls ekki fara yfir marklínuna.  Það var því algjörlega gegn gangi leiksins að gestirnir kæmust yfir eftir að hafa fengið stungusendingu í gegnum vörn okkar og eftirleikurinn auðveldur.  Staðan í hálfleik var 1-0, ÍA í vil.

Í seinni hálfleik hélt sami sóknarþungi okkar að marki ÍA áfram.  Loks náðu þær að brjóta ísinn og jafna leikinn.  Berta átti þá hörkuskot fyrir utan teig og boltinn söng í netinu en Berta var að leika sinn besta leik í sumar, hún var allt í öllu og var út um allan völl að vinna vinnuna sína.  Sigurmarkið kom á 61. mínútu þegar Guðbjörg skoraði eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn ÍA.

4. flokkur, B-lið: Keflavík - ÍA: 2-1 (Berta Björnsdóttir, Guðbörg Ægisdóttir)
Keflavík:
Ísabella, Guðbjörg, Hulda, Kara, Arna, Berta, Ingunn, Hera, Elísa, Jenný, Sigurrós, Bryndís


Mynd: Berta átti stórleik gegn ÍA og skoraði fyrra mark Keflavíkur í leiknum.