Fréttir

Knattspyrna | 21. ágúst 2009

Það húmar að og haustið færis bíður...

Sælir stuðningsmenn Keflavíkur!

Nú þegar við erum að undirbúa okkur fyrir leikinn á morgun gegn KR sitjum við í fjórða sæti deildarinnar og eigum ennþá möguleika á Evrópusæti.  Eftir frækinn sigur gegn FH í bikarnum hefur okkur verið skellt allrækilega niður á jörðina í seinustu deildarleikjum.  Batamerki voru þó á leik okkar gegn Stjörnunni þó okkur tækist ekki að skora en við höfum nú leikið þrjá leiki í röð án þess að skora mark og er það algerlega óásættanlegt fyrir okkar lið.  Það er þó okkar tilfinning að þegar stíflan brestur að þá verður flóð og einungis spurning um hverjir verða fyrir því!

Það segir sig alveg sjálft að við höfum ekki náð öllum markmiðum okkar hingað til í sumar þó einhver hafi þau náðst.  Við viljum gera betur í deildinni og eigum möguleika á að setja þá vinnu rækilega af stað með sigri gegn KR.  Það er alltaf tilhlökkunarefni hjá okkur Keflvíkingum að mæta stórveldinu frá Reykjavík og við búumst við góðri mætingu stuðningsmanna okkar og miklum og góðum stuðningi.  Við vitum alveg af því að ef við stöndum okkur inni á vellinum að þá eru stuðningsmenn í gírnum í stúkunni.  Það verður markmið okkar í leiknum á morgun.

Nú þegar húmar að, kólnar í veðri og vika er á milli leikja er gott að hafa eitthvað spennandi verkefni framundan til að viðhalda virkni leikmanna.  Bikarinn, við erum gríðarlega glaðir með að geta boðið stuðningsmönnum okkar upp á undanúrslitaleik í VISA-bikarkeppninni.  Leikurinn fer fram sunnudaginn 13. september kl 16:00 gegn Breiðabliki á Laugardalsvellinum.  Við erum allir staðráðnir í því að fara alla leið og hampa bikarnum í haust með stuðningsmönnum okkar, það er fátt skemmtilegra!, en fyrst verðum við að standa okkur eins og Suðurnesjamönnum sæmir og ljúka Íslandsmótinu af krafti og taka þau stig sem í boði eru í seinustu fimm leikjunum.  Við viljum enda í efstu sætunum í deildinni og fyrsta skrefið í þá átt skal tekið á morgun á frábærum rennisléttum Sparisjóðsvellinum í Keflavík þegar við tökum á móti KR.   Með sameiginlegu átaki þar sem allir stefna í sömu átt þá hefst það.

...haustið - það er góður vinur minn.
Kristján Guðmundsson, þjálfari, Keflavík FC