Þegar góða gesti ber að garði...
Á dögunum fór fram Evrópuleikur Keflavíkur og Dungannon Swifts í 1. umferð InterToto-keppni UEFA. Þegar um leiki í Evrópukeppni er að ræða er meira tilstand en fyrir leiki í keppnum hér heima. M.a. eru gerðar meiri kröfur til aðstæðna og öryggis á leikvöllum. T.d. þurfa allir að sitja á leikjum eins og gestir á Keflavíkurvelli tóku eftir. Sumir þurftu reyndar nokkrar mínútur til að átta sig á því en erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja! Það gengur líka meira á bak við tjöldin en stjórn og starfsmenn Knattspyrnudeildar unnu hörðum höndum við undirbúning leiksins. Það þarf að taka á móti aðkomuliðinu og fylgismönnum þeirra, dómurum, eftirlitsmanni og fleirum og því er í mörg horn að líta.
Kvöldið fyrir leikinn gat fólk þó aðeins slappað af en þá bauð Knattspyrnudeild forsvarsmönnum Dunngannon-liðsins og Hr. Michel Pralong, eftirlitsmanni UEFA, til veislu í Bláa lóninu. Að sjálfsögðu var fiskur á borðum og gestirnir nutu svo sannarlega matar síns í glæsilegu umhverfi. Þá voru gestirnir leystir út með gjöfum eins og venja er við tækifæri sem þessi. Ekki var annað að heyra en að gestir okkar væru hæstánægðir með móttökurnar og aðbúnaðinn.
Myndir: Jón Örvar Arason