Fréttir

Knattspyrna | 10. júlí 2006

Þegar Jón hitti Gunnar...

Það þarf varla að kynna Jón Örvar Arason fyrir stuðningsmönnum Keflavíkur enda hefur hann tengst félaginu lengi sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, stuðningsmaður og Guð má vita hvað.  Það hefur heldur ekki farið fram hjá lesendum síðunnar að Jón og Eygló kona hans hafa undanfarin ár tekið myndir af leikjum og ferðalögum Keflavíkurliðsins sem hafa margar birst hér á síðunni.  Það eru hins vegar örfáir sem vita að Jón Örvar er ákafur stuðningsmaður enska 1. deildarliðsins Leeds United og hefur víst verið það nokkuð lengi.  Svo skemmtilega vildi til að aðstoðarþjálfari Lilleström er Gunnar Halle, fyrrverandi leikmaður Leeds.  Jón skellti sér því í Leeds-gallann, skrapp á æfingu hjá norska liðinu og heilsaði upp á Gunnar.  Urðu þar fagnaðarfundir og fór vel á með þeim félögum.  Sérstaklega þegar það kom upp úr kafinu að Gunnar hefur frá barnaæsku verið mikill aðdáandi knattspyrnuliðs Reynis frá Sandgerði og var því himinlifandi að hitta loksins fyrrverandi leikmann þess ljóslifandi.  Höfðu þeir kumpánar því um margt að spjalla.

Þess má geta að Gunnar Halle lék með Leeds á árunum 1996-1999.  Hann er fæddur í Larvik og hóf ferilinn í heimabæ sínum en gekk til liðs við Lilleström árið 1985.  Árið 1990 fór Halle til Englands og gekk til liðs við Oldham þar sem hann lék við góðan orðstír og þótti m.a. sterkasti leikmaður liðsins í stuttu stoppi þess í ensku úrvalsdeildinni.  Þaðan fór Halle til Leeds þar sem hann lék 90 deildarleiki og skoraði 4 mörk.  Frá Leeds lá leiðin til Bradford og Halle lék síðan nokkra leiki með Wolves áður en hann hélt heim til Noregs og gekk aftur til liðs við Lilleström árið 2002.  Gunnar Halle lagði skóna á hilluna í lok ársins 2003 og hóf þá að þjálfa í neðri deildunum í Noregi.  Hann kom síðan aftur til Lilleström á síðasta ári og gerðist aðstoðarþjálfari liðsins.  Halle lék á sínum tíma 64 landsleiki, skoraði fimm mörk og lék með Norðmönnum í úrslitakeppni HM 1994 og 1998.

Jón Örvar Arason lék á sínum tíma sem markvörður hjá flestum knattspyrnuliðum á Suðurnesjum og lék einn leik með U-16 ára landsliði Íslands árið 1976.


Gunnar og Jón á Keflavíkurvelli.


Gunnar Halle í búningi Leeds United og Jón Örvar í Keflavíkurbúningum.