Þjálfaramál
Undirbúningur er í fullum gangi og munu hinir fjölmörgu þjálfarar koma strákunum í gott form fyrir komandi tímabil.
Eins og vitað er þá mun Kristján Guðmundsson verða okkar aðalþjálfari en sá kornungi maður er með marga góða menn með sér (kornungi einungis því hann er yngri en sá sem þetta ritar) .
Fyrstan má telja aðstoðarþjálfarann Kristinn „Bikar“ Guðbrandsson, en eins og flestum er í fersku minni þá skoraði hann sigurmarkið í bikarleiknum fræga 1997 þegar komið var í bráðarbana. Kristinn eða Kiddi eins og við þekkjum hann er hokinn af reynslu eftir áralanga veru í vörninni í Keflavík.
Þjálfarateymið telur einnig Örn Steinar einkaþjálfara í Perlunni, en vikulega mun hann fara yfir líkamlegt form leikmanna svo að tryggt sé að þeir verða sem best búnir fyrir komandi tímabil. Hann er þekktur fyrir að koma mönnum í eins gott form og mögulegt er svo ekki er ólíklegt að einhverjir leikmenn munu finna áður ófundna vöðva og nota þá á komandi tímabili.
Síðast en ekki síst kemur markmannsþjálfarainn Rajteo Stanic 1. febrúar en hann hefur gert þriggja ára samning við Keflavík og væntum við mikils af hans starfi. Ekki er ólíklegt að Keflavík muni halda hreinu næstu 3 ár.
Falur Daðason sjúkraþjálfari mun gæta að líkamlegri heilsu leikmanna eins og hingað til að sinni alkunnu fag- og prúðmennsku.
Þá ekki síst verða þessum ágætu starfsmönnum til aðstoðar eins og undanfarin ár Þórólfur Þorsteinsson sem sér um búningamál liðsins og Óskar Rúnararsson er aðstoðarmaður allra með vatn og aðra þjónustu við liðið á æfingum og leikjum.
Eins og sést á þessu öfluga teymi er valinn maður í hverju rúmi ogr metnaðurinn mikill, enda stefnum við á það að verða Íslandsmeistarar. Kannski ekki í ár, eða næsta ár, en stefnan er alltaf tekin á meistaratitil, enda getur ekkert lið með metnað stefnt á eitthvað annað.
Áfram Keflavík
Rúnar I. Hannah.
Þjálfararnir finna fyrir hitanum í Luxemborg.
(Mynd: Jón Örvar Arason)