Þjálfarinn ánægður með stöðuna
Eins og flestir vita tók Milan Stefán Jankovic við þjálfarastöðunni hjá Keflavík fyrir þetta tímabil og hafa stuðningsmenn varla getað verið annað en ánægðir með hans störf. Liðið lék vel á undirbúningstímabilinu og komst úrslitaleik deildarbikarsins en tapaði honum naumlega. Eftir sex leiki í 1. deildinni er liðið í efsta sæti deildarinnar og hefur verið að leika vel.
Í samtali við heimasíðuna sagði Janko að hann væri að sjálfsögðu ánægður með gengi liðsins en staðan kæmi honum ekki á óvart; það hefði alltaf verið stefnt á efsta sætið. Hann var sammála því að liðið væri búið að leika vel en samt ekki eins vel og það gæti; fólk ætti enn eftir að sjá liðið leika eins og það best getur. Hann sagðist mjög ánægður með starfið hjá Keflavík; umgjörðin væri góð og leikmannahópurinn geysilega góður. Það væri mikill karakter í liðinu og hann hefði varla kynnst því áður að vera með svo stóran hóp leikmanna þar sem karakterinn væri svo sterkur í gegnum allan hópinn.
Við óskum Janko svo að sjálfsögðu góðs gengis í framhaldinu og vonum að honum og strákunum gangi áfram jafn vel og í undanförnum leikjum.
![]() |
Janko ásamt Ragnari aðstoðarþjálfara á æfingu |