Fréttir

Þór - Keflavík á miðvikudag kl. 17:00
Knattspyrna | 17. september 2013

Þór - Keflavík á miðvikudag kl. 17:00

Miðvikudaginn 18. september leika Þór og Keflavík í 20. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn fer fram á Þórs-vellinum og hefst kl. 17:00.  Fyrir leikinn er Keflavík í 7.-8. sæti deildarinnar með 20 stig og Þórsarar koma rétt þar á eftir í 10. sæti með 17 stig.  Bæði lið þurfa á stigunum að halda í botnbaráttuni og hérna er því á ferðinni einn af þessum margumtöluðu sex stiga leikjum.  Dómari leiksins verður Erlendur Eiríksson, aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Bryngeir Valdimarsson og Bragi Bergmann er eftirlitsmaður KSÍ.

Keflavík og Þór hafa leikið 25 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1977.  Keflavík hefur unnið níu leikjanna, níu sinnum hefur orðið jafntefli en Þór hefur unnið sjö leiki.  Markatalan er 44-39 fyrir Keflavík.  Stærsti sigur Keflavík er 5-2 sigur árið 1993 og það er jafnframt mesti markaleikur liðanna í efstu deild.  Þórsarar hafa mest unnið Keflavík með tveggja marka mun.  Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Þór í efstu deild, Magnús Þorsteinsson hefur skorað tvö mörk og Arnór Ingvi Traustason, Jóhann Birnir Guðmundsson og Hörður Sveinsson eitt hver.

Liðin mættust 4 sinnum í næstefstu deild árin 1991 og 2003.  Þór vann tvo leikjanna en hinum tveimur lauk með jafntefli.  Markatalan í B-deildinni er 6-9 fyrir Þór.

Liðin hafa mæst fjórum sinnum í bikarkeppni KSÍ, árin 1987, 1991, 1993 og 2009.  Þór vann tvo fyrstu leikina eftir vítaspyrnukeppni en Keflavík vann tvo þá síðari.  Markatalan er 6-4 fyrir Keflavík. 

Liðin mættust í Pepsi-deildinni fyrr í sumar og þá á Nettó-vellinum.  Þór vann þann leik 3-1 þar sem Arnór Ingvi Traustason skoraði fyrir Keflavík en Chukwudi Chijindu, Jóhann Helgi Hannesson og Sveinn Elías Jónsson gerðu mörk Norðanmanna.

Það hefur ekki verið mikill samgangur milli félaganna tveggja í gegnum árin.  Þó má ekki gleyma því að Kristján Guðmundsson þjálfaði Þór á sínum tíma og Pétur Heiðar Kristjánsson, Óli Þór Magnússon og Ólafur Pétursson hafa leikið með báðum þessum félögum.

Úrslit í leikjum Þórs og Keflavíkur í efstu deild á heimavelli Þórsara hafa orðið þessi:

2011 Þór - Keflavík 2-1 Hilmar Geir Eiðsson
2002 Þór - Keflavík 1-1 Magnús Þorsteinsson
1994 Þór - Keflavík 3-4 Sverrir Þór Sverrissonn 2
Ragnar Margeirsson
Óli Þór Magnússon
1993 Þór - Keflavík 1-1 Óli Þór Magnússon
1989 Þór - Keflavík 2-2 Ingvar Guðmundsson
Freyr Sverrisson
1988 Þór - Keflavík 2-2 Grétar Einarsson
Sigurður Björgvinsson
1987 Þór - Keflavík 2-2 Peter Farrell
Óli Þór Magnússon
1986 Þór - Keflavík 3-2 Freyr Sverrisson
Einar Ásbjörn Ólafsson
1985 Þór - Keflavík 1-0  
1984 Þór - Keflavík 0-0  
1983 Þór - Keflavík 2-0  
1977 Þór - Keflavík 1-2 Ómar Ingvarsson
Ólafur Júlíusson