Þórarinn til Grindavíkur
Þórarinn Kristjánsson hefur ákveðið að yfirgefa herbúðir okkar Keflvíkinga og er genginn til liðs við nágranna okkar í Grindavík. Þórarinn er 28 ára gamall og hefur um árabil verið einn traustasti leikmaður Keflavíkurliðsins. Hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 1996, aðeins 15 ára gamall, og skoraði þá sigurmarkið í frægum leik gegn ÍBV. Þórarinn var á sínum tíma á mála hjá Aberdeen í Skotlandi og lék eitt sumar með Þrótti í Reykjavík. Hann á að baki 166 deildarleiki fyrir Keflavík (62 mörk), 29 bikarleiki (16 mörk) og 6 leiki í Evrópukeppnum (3 mörk). Þórarinn varð bikarmeistari með Keflavík 1997, 2004 og 2006. Við þökkum Þórarni samveruna og óskum honum velfarnaðar á nýjum vígstöðvum.