Þrenna hjá Fanneyju og sigur hjá 3. flokknum
Í gær spilaði 4. flokkur kvenna í blíðskaparveðri gegn ÍR og var spilað á ÍR-velli. Stelpurnar byrjuðu leikinn á fullu og voru svo sannarlega staðráðnar að ná í þessi þrjú stig sem í boði voru. Keflavíkurstelpur sóttu meira en voru að gera sér þetta svolítið erfitt fyrir er þær nálguðust mark mótherjanna. Á meðan voru heimastúlkur meira í því að skjóta á okkar mark nánast hvar sem var á vellinum, skot sem markvörður okkar átti ekki í vandræðum með. Fyrsta markið leit dagsins ljós um miðjan fyrri hálfleik, sending utan af hægri kanti fyrir mark ÍR rataði beint á hægri fót Fanneyjar sem smellti boltanum í netið. Áfram vorum við meira með boltann en ÍR-ingar reyndu þó eitt og eitt hraðaupphlaup sem vörnin stoppaði strax. Stuttu fyrir leikhlé fengum við hornspyrnu og upp úr henni skoraði Fanney aftur, 0-2 í hálfleik. Ekki voru liðnar nema fimm mínutur af þeim seinni er heimastelpur minnkuðu muninn með óþarfa marki sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Stelpurnar létu þetta ekki slá sig út af laginu og voru fljótar að svara fyrir sig, eftir glæsilegt þríhyrningsspil fékk Bagga boltann úti hægra meginn og afgreiddi hann viðstöðulaust í fjærhornið, glæsilegt mark! Fanney fullkomnaði síða þrennuna þegar markvörður ÍR átti misheppnað útspark, boltinn féll beint fyrir fætur hennar og ekkert annað en að afgreiða hann í fyrsta og staðan orðin 4-1. Eftir þetta mark kom smá slökun í stelpurnar enda sigurinn í höfn og heimastúlkur bættu sínu öðru marki við áður en blásið var til loka leiksins.
Aðeins var spilað á A-liðum þar sem ÍR hafði dregið B-lið sitt úr keppni.
4. flokkur kvenna, A-lið:
ÍR - Keflavík: 2 - 4 (Fanney Kristinsdóttir 3, Sigurbjörg Auðunsdóttir)
Stúlka leiksins: Fanney Kristinsdóttir
Elís Kristjánsson, þjálfari