Þriðji pistill frá Spáni - Sjóbað
Oliva Nova á Spáni, dagur fjögur
Sama og venjulega, takk fyrir. Vaknað snemma og morgunæfing kl. 10:00. Eitthvað sat leikurinn frá því í gær í þjálfaranum. Hlaupið í 45 mínútur vegna þess að leikmenn skulduðu allan seinni hálfleikinn í gær! Vel tekið á og góðar teygjur. Willum og Falur hlupu allan tímann með strákunum í steikjandi hita á flottum vellinum. Síðan var farið í skallatennis, tveir og tveir saman. Einhverjum tókst í lokin að finna það út að gamlir hefðu unnið skallatennisinn en ég þarf að kynna mér þetta aðeins betur til að geta staðfest það. Jæja, en þetta var ekki búið og Willum leiddi hópinn niður á strönd þar sem allir fóru í sjóinn í stuttan tíma. Flott kæling fyrir strákana sem höfðu gaman af. Hörður er eitthvað að kveinka sér og finnur til aftan í læri en Falur segir það ekki alvarlegt. Hörður var bara í rólegheitunum í morgun og skokkaði lítillega, ásamt öðrum æfingum.
Frí var gefið eftir hádegið og sumir notuðu tímann í sólinni. Aðrir tóku hvíldina og sumir fóru í mollið sem er einhverja 8 kílómetra héðan. Vitað er um nokkra sem ætla að kaupa Benfica búninginn, því sumir létu aðra heyra það í gærkvöldi þegar Man. Utd. datt út úr Meistaradeildinni. Þið vitið hvað ég er að tala um... er það ekki? Það verður því stemming í kvöld þegar leikur Liverpool og Benfica hefst.
Kær kveðja,
Jón Örvar