Þrír leikmenn gera samning við Keflavík
Í dag bóndadaginn 21. janúar skrifuðu þrír ungir og efnilegir leikmenn undir samning við Keflavík til þriggja ára. Leikmennirnir eru Keflvíkingar í húð og hár, uppaldir hjá liðinu. Þeir eru Ólafur Jón Jónsson, Þorsteinn Atli Georgsson og Guðmundur Árni Þórðarson. Leikmennirnir eru allir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fór undirskrift samninganna fram á sal skólans, en fjórði nemandinn Benedikt Birkir Hauksson er einnig samningsbundinn Keflavík. Það var skemmtilegt andrúmsloft við undirskriftina en einhver hundruð nemenda samfögnuðu skólabræðrum sínum með þennan merka áfanga á þeirra ferli sem knattspyrnumanna með því að klappa ógurlega fyrir þeim að undirritun lokinni. Í skólanum eru þeir að leggja drög að framtíð sinni og óskum við þeim alls hins besta á þeirri braut eins og við bindum miklar vonir við þá sem knattspyrnumenn framtíðarinnar. Þessir leikmenn voru kallaðir til síðasta sumar og tóku þátt í leikjum meistaraflokks frá miðju sumri og enduðu með að verða bikarmeistarar á sínu fyrsta ári í meistaraflokki. Geri aðrir betur. ási
Frá undirritun samninganna; Guðmundur, Ólafur, Þorsteinn
og Ási framkvæmdastjóri. (Mynd: Axel Sigurbjörnsson)