Fréttir

Knattspyrna | 26. júní 2009

Þrjú góð stig gegn Þrótturum

Keflavík vann mikilvægan og sanngjarnan sigur á Þrótti 3-2 á Sparisjóðsvellinum í gærkvöldi.  Öll mörkin komu í síðari hálfleik.  Okkar lið er nú í 4. sæti deildarinnar og fikrar sig hægt og rólega upp töfluna.  Hólmar Örn er frá hjá okkur eins og allir vita, Jóhann Birnir var ekki með vegna meiðsla, Nicolai Jörgensen var veikur og svo meiddist Símun í þokkabót og er óvíst með hann í næsta leik.  Ekki var hægt að kvarta undan veðrinu enda með eindæmum gott og völlurinn upp á sitt besta.  Það var ekki mikið sem gerðist í fyrri hálfleik.  Þróttarar aðeins sterkari ef eitthvað var og bæði lið áttu þokkaleg færi.

Það tók ekki langan tíma fyrir Keflavík að skora í seinni hálfleik en á 48. minútu skoraði Stefán Örn eftir fallega sókn.  Lasse átti svo magnaða markvörslu eftir skalla, varði boltann í slá og yfir.  Ótrúleg markvarsla af stuttu færi.  Strax eftir þessa markvörslu, eða á 69. minútu, skoraði Magnús Sverrir úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Hauki Inga í vítateignum.  Staðan orðin 2-0 og margir önduðu léttar.  Það var lítið eftir þegar Þróttarar minnkuðu muninn úr vítaspyrnu eftir að Alen fékk boltann í höndina.  En þetta var alls ekki búið.  Hörður skorar gott mark eftir að venjulegur tími var úti og staðan orðin 3-1.  Þróttarar taka miðju og bruna upp og skora og staðan 3-2.  Alveg ótrúlegur lokakafli en þrjú mikilvæg stig í höfn.

Næsti leikur er á sunnudaginn gegn Grindavík á útivelli og hefst kl 20.00.

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Símun Samuelsen (Stefán Örn Arnarson 33.), Bessi Víðisson (Haukur Ingi Guðnason 46.), Magnús Þórir Matthíasson (Viktor Guðnason 66.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson markvörður, Bojan Stefán Ljubicic, Jón Gunnar Eysteinsson og Þorsteinn Atli Georgsson.

Dómari: Þorvaldur Árnason.
Áhorfendur: ca 1.000.

Kristján þjálfari og Guðjón fyrirliði voru í viðtali á fótbolti.net og birtum við þau hér með þeirra leyfi.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var ekki sáttur við spilamennsku sinna manna í heild en sáttu með sigurinn á Þrótti í kvöld og stigin þrjú. En Keflvíkingar unnu 3 - 2 þrátt fyrir frekar bragðdaufan leik.
,,Já hann var bragðdaufur framan af en síðustu mínúturnar komu 5 mörk í kassann. Við spiluðum alltof hægt og vorum lengi að taka ákvarðanir hvert við ætluðum að senda boltann og það endaði í þessum löngu sendingum sem við erum orðnir svoldið þreyttir á. Við eigum að spila styttri bolta og færa hann hraðar á milli línana" sagði Kristján í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Mér fannst í rauninni í öllum leiknum þeir vera aðeins að opna okkur og láta okkur hafa vel fyrir hlutunum. Mér finnst markmaðurinn okkar (Lasse Jörgensen) verja töluvert vel í leiknum og ég held að hann eigi töluvert í því að við vinnum." sagði Kristján þegar minnst var á yfirburði Þróttara í fyrri hálfleik.

Lasse Jörgensen átti eina þá mögnuðustu markvörslu sem sá sem þetta ritar hefur séð í sumar og hefur komið virkilega sterkur inn í Keflavíkur liðið.
,,Það er mjög gleðilegt að þessi strákur skuli ná sér á strik því að hann var kominn út í kuldann hjá sínu liði í Danmörku og þurfti á því að halda að spila reglulega og fá traustið og við höfum sýnt honum traust og hann hefur verið nokkuð sterkur í mótinu '"
 
Næsti leikur Keflavíkur er á móti grönnunum í Grindavík á sunnudag og verður mikið húllumhæ í kringum þann leik. Hvernig skyldi nágrannaslagurinn leggjast í Kristján?
,,Það er bara spennandi, það er alltaf gaman að spila svona nágrannaleiki þar sem tekist er vel á því og læti og hávaði og skemmtilegheit í stúkunni. Þannig að ég á von á bara miklum tónlistarviðburði."

Símun Samuelsen var tekinn útaf í fyrri hálfleik að því virtist meiddur.
,,Hann fékk högg á lærið í samstuði en það ætti vonandi bara að vera orðið fínt á sunnudaginn."

Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði Keflvíkinga var ánægður með stigin þrjú sem Keflvíkingar fengu í kvöld með 3-2 sigri á Þrótti.
,,Þetta var kannski bragðdaufur leikur þangað til í restina. Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað en við ákváðum að berja okkur saman í hálfleik og náðum að setja mark á þá fljótlega og þá fór þetta að opnast aðeins meira og síðasta korterið var leikurinn svoldið opinn og mikið að gerast," sagði Guðjón í samtali við fótbolta.net eftir leikinn.

,,Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur og fyrstu mínúturnar áttu Þróttararnir meira og voru meira með boltann og við komumst ekki í neina sjénsa. Þegar líða tók á hálfleikinn komumst við meira inn í leikinn og náðum að skapa okkur nokkuð, að sama skapi að þá sköpuðu þeir sér kannski eitthvað fyrst en ekkert meira," sagði Guðjón um það að Þróttararnir hefðu verið sterkari í fyrri hálfleik.
,,Fyrst og fremst erum við gríðarlega ánægðir með að fá 3 stig. Við skoruðum líka 3 mörk en fengum að sama skapi 2 á okkur og það er eitthvað sem við þurfum að hugsa aðeins um."


Lasse átti magnaða markvörslu og stuttu síðar komst Keflavík í 2-0.