Þróttur - Keflavík á miðvikudag kl. 19:15
Þróttur og Keflavík mætast í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins miðvikudaginn 11. júlí. Leikurinn fer fram á Valbjarnarvelli í Laugardal og hefst kl. 19:15. Dómari leiksins er Sævar Jónsson, aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Örvar Sær Gíslason en eftirlitsmaður KSÍ er Geir Agnar Guðsteinsson.
Keflavík og Þróttur hafa fjórum sinnum áður mæst í bikarkeppninni og hafa þeir allir verið miklir markaleikir. Árið 1961 vann Keflavík fyrsta bikarleik liðanna 3-2, Þróttur vann 4-3 árið 1978 og árið 1989 vann Keflavík 3-2. Liðin mættust síðast í bikarnum árið 1991 þegar þau mættust í 3. umferð keppninnar. Keflavík vann þá 4-3 á Þróttarvelli þar sem Kjartan Einarsson skoraði tvö mörk og Gestur Gylfason og Jakob Jónharðsson eitt hvor.
Þróttarar leika nú í 1. deild en þrátt fyrir að liðið sé deild neðar en Keflavík er ljóst að við eigum hörkuleik í vændum. Þróttur er nú í 3. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 10 leiki en þrjú efstu liðin leika í úrvalsdeild að ári. Með liðinu leika nokkrir leikmenn sem hafa heilmikla reynslu úr efstu deild eins og Ólafur Þór Gunnarsson, Þórhallur Hinriksson og Hjörtur Hjartarson. Með liðinu leika tveir fyrrverandi leikmenn Keflavíkur, þeir Adolf Sveinsson og Ólafur Berry. Þá má ekki gleyma því að þjálfari Þróttar er Keflvíkingurinn Gunnar Oddsson en hann var einmitt leikmaður og þjálfari bikarmeistara Keflavíkur árið 1997.