Fréttir

Knattspyrna | 29. maí 2005

Þróttur - Keflavík á þriðjudag

Þróttur og Keflavík leika í 4. umferð Landsbankadeildarinnar þriðjudaginn 31. maí.  Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 19:15.  Þróttarar hafa ekki krækt í stig í fyrstu þremur leikjum sínum og þurfa að snúa blaðinu við.  Okkar menn ætla að sjálfsögðu að fylgja eftir góðum sigri gegn KR í síðustu viku og bæta við stigin sex sem liðið hefur þegar unnið.  Dómari leiksins verður Egill Már Markússon, aðstoðardómarar hans þeir Einar K. Guðmundsson og Hans Kristján Scheving en eftirlitsmaður er Sveinn Sveinsson.

Keflavík og Þróttur hafa leikið 22 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1959.  Keflavík hefur unnið 11 leiki, Þróttur hefur haft betur í 4 leikjum en 7 hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 36-22, Keflavík í vil.  Liðin hafa ekki leikið marga leiki í efstu deild undanfarin ár og enginn leikmaður sem nú leikur með Keflavík hefur skorað gegn Þrótti; Gestur Gylfason skoraði í leik í B-deild árið 1991.  Stærsti sigur Keflavík gegn Þrótti var 8-1 árið 1959 en Þróttarar unnu 5-1 árið 1998 þegar liðin léku síðast saman í efstu deild.

Liðin hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppninni, fyrst árið 1961 en síðast árið 1991.  Keflavík hefur unnið þrjá leikjanna en Þróttur einn.  Markatalan er 13-11 fyrir Keflavík.  Gestur Gylfason hefur skorað eitt bikarmark í leikjum þessara liða, það var í leiknum árið 1991 sem Keflavík vann 4-3.

Ekki hefur verið mikill samgangur milli Keflavíkur og Þróttar í gegnum árin.  Elstu menn muna ekki eftir leikmönnum sem hafa leikið fyrir bæði félögin og er Þórarinn Kristjánsson því sá fyrsti sem þar gerir.  Hann gekk til liðs við Þrótt á dögunum eftir að hafa leikið með Aberdeen í vetur.

Hér má sjá úrslit í leikjum liðanna á heimavelli Þróttar undanfarin ár:

1998 A-deild Þróttur - Keflavík 1-0
1992 B-deild Þróttur - Keflavík 2-5 Kjartan Einarsson 3
Óli Þór Magnússon 2
1991 B-deild Þróttur - Keflavík 1-2 Kjartan Einarsson
Óli Þór Magnússon
1985 A-deild Þróttur - Keflavík 1-0
1984 A-deild Þróttur - Keflavík 1-2 Einar Ásbjörn Ólafsson
Sigurður Björgvinsson
1983 A-deild Þróttur - Keflavík 2-1 Gísli Eyjólfsson
1981 B-deild Þróttur - Keflavík 2-0
1980 A-deild Þróttur - Keflavík 1-1 Óli Þór Magnússon
1979 A-deild Þróttur - Keflavík 1-2 Sigurbjörn Gústavsson
Ragnar Margeirsson
Þórður Karlsson
Kári Gunnlaugsson