Tímamótaleikur hjá Magnúsi og Guðmundi
Leikurinn gegn Val var tímamótaleikur hjá tveimur af reyndustu leikmönnum Keflavíkurliðsins, þeim Magnúsi Þorsteinssyni og Guðmundi Steinarssyni. Þeir félagar áttu báðir skínandi leik eins og allt Keflavíkurliðið og Guðmundur skoraði einmitt úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Magnúsi í teignum eftir góðan sprett.
Leikurinn var 100. deildarleikur Magnúsar fyrir Keflavík en sá fyrsti var einmitt gegn Val í ágúst 1999. Magnús hefur skorað 18 mörk í þessum leikjum en þar af komu 18 leikir og 12 mörk í næstefstu deild. Auk þess hefur strákurinn spilað 14 bikarleiki (4 mörk) og 5 Evrópuleiki (1 mark).
Hinn aldurhnigni fyrirliði liðsins lék á laugardaginn sinn 150. leik fyrir Keflavík í efstu deild en Guðmundur lék sinn fyrsta leik árið 1996. Hann er nú 8. leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi og er á hraðferð upp listann. Ólafur Júlíusson lék á sínum tíma 151 leik og Jón Ólafur Jónsson 154 og Guðmundur fer því að öllu óbreyttu upp í 6. sæti listans á næstunni. Þar fyrir ofan er Gestur Gylfason með 172 leiki og efstur er Sigurður Björgvinsson með 214. Með fjölgun liða í deildinni verða menn svo auðvitað fljótari að safna leikjum í sarpinn. Auk deildarleikjanna hefur Guðmundur spilað 26 bikarleiki (16 mörk) og 9 leiki í Evrópukeppnum (3 mörk).
Með mörkunum tveimur sem hann skoraði gegn Val er Guðmundur búinn að skora 50 fyrir Keflavík í efstu deild. Hann er nú 3. markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi og er kominn upp fyrir Ragnar heitinn Margeirsson sem skoraði 48 mörk. Næstur er Óli Þór Magnússon með 57 mörk og markahæsti leikmaður félagsins er Steinar nokkur Jóhannsson með 72 mörk. Guðmundi vantar því ennþá 22 mörk til að ná karli föður sínum en það er heldur styttra í Óla Þór.
Guðmundur á baráttunni gegn Valsmönnum.
(Mynd: Víkurfréttir)