Tippari vikunnar - Gunnar Magnús Jónsson
Ég ætla að reyna að hafa tippara vikunnar fyrir hvern leik og fékk ég Gunnar M. Jónsson, þjálfara til að ríða á vaðið.
1. Hvernig fannst þér knattspyrnan í fyrstu umferð íslandsmótsins?
Leikur Keflavíkur og FH bauð ekki upp á hágæða knattspyrnu og var því miður lítið um opin færi sem allir vilja sjá. En spennan við fyrsta leik, sem var búin að magnast upp hér í bæ s.l. mánuði, gerði það að verkum að það eitt að vera mættur á völlinn gerði þennan viðburð að hinni bestu skemmtun. Öll umgjörðin í kringum leikin var til mikillar fyrirmyndar og sérlega gaman að formlegur opnunarleikur deildarinnnar fór fram í Keflavík. Ég sá einnig hluta úr leik Fylkis gegn KR og fannst mér bragurinn á þeim leik allt annar en í Keflavíkinni. Mun meiri hraði og opnari leikur, a.m.k. það sem ég sá. En "Rauða Lukku-Ljónið" var svo sannarlega með KR-ingum i för í Árbænum, var þetta meistaraheppnin?!
2. Einhver úrslit sem komu þér á óvart?
Það var nánast allt eftir bókinni, en ég veðjaði þó á sigur hjá Keflavík og Grindavík á Lengjunni, það gekk því miður ekki eftir!! Það kom mér s.s. verulega á óvart að engin óvænt úrslit litu dagsins ljós.
3. Hvaða leikmaður okkar var bestur á móti FH?
Það var enginn einn leikmaður sem stóð upp úr. Leikmenn voru all flestir að leggja sig vel fram og voru greinilega tilbúnir í slaginn, en það vantaði meira sjálfstraust í sóknarleik liðsins. Aftasta varnalína FH var gríðarlega öflug og ekki árennileg, en okkar menn voru full ragir að sækja á þá. Það var ekki fyrr en Bói fór á kantinn að eitthvað "spennandi" fór að gerast.
4. Hvernig spáir þú leikjum í næstu umferð?
1. Þróttur-Fylkir
Tvö skemmtileg lið á ferð og hef ég trú á miklum markaleik, 3 - 3. Tóti byrjar með látum og gerir þrennu.
2. ÍBV-Keflavík
Við höfum aðeins unnið ÍBV einu sinni í síðustu 11 viðureignum í Eyjum og náð einu jafntefli! Að auki höfum við aðeins skorað 7 mörk og fengið á okkur 27 ! Ekki beint óskaleikvöllur Keflvíkinga, en Eyjaskeggjar eru með slakt lið um þessar mundir og eiga ekki roð í spræka Keflavíkurpilta, við vinnum 1 - 2 með mörkum frá Gumma og Brian.
3. Grindavík-FH
Grindvíkingar hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum s.l. daga og eiga eftir að móta sitt lið betur, ætli Janko spili ekki með? FH eru einfaldlega of sterkir fyrir Grindavík og halda sig við sömu markatölu og gegn Keflavík 0 - 3.
4. KR-Fram
Reykjavíkur "stórveldin" skiptast á jafnan hlut í þessum leik, 1 - 1 í tíðindalitlum leik.
5. Valur-ÍA
Valsmenn voru góðir í fyrsta leik, verða lélegir í öðrum leik. Skaginn var lélegur gegn Þrótti en ná toppleik gegn Hlíðarendapiltum, 0 - 2 og Hjössi Hjass heldur áfram að setj´ann og gerir tvö!
5. Hvaða lið á eftir að koma á óvart í sumar?
Ég veðja á Þróttarana, stemmningslið sem á eftir að laga það sem úrskeiðis fór sumarið 2003.....svo hafa þeir fengið öflugan "striker" sem lærði þá list að skora mörk í KEF og hann á eftir að nýtast þeim vel. Ég held einnig að Fram eigi eftir að koma öllum á óvart, með því að vera ekki í fallbaráttu í loka umferðinni, þeir eru með öflugan mann í brúnni.
6. Hvaða viltu sjá gerast hjá Keflavíkurliðinu í sumar og hjá stuðningsmönnum?
Ég vil sjá Keflavíkurliðið spila skemmtilegan bolta þar sem boltinn fær að ganga manna á milli, ég aðhyllist slíkan knattspyrnustíl fremur en tilviljunarkenndar langar sendingar. Árangurinn helst því miður ekki alltaf í hendur við gæði, en til langs tíma litið þá færir það okkur í hærri hæðir. Við í Keflavík þurfum að sýna meiri þolinmæði í garð okkar liðs, jafnt stuðningsmenn, stjórnarmenn og aðrir sem að liðinu koma. Undangengin ár hefur alltaf átt að gera STÓRA hluti á skömmum tíma, við verðum að fara að horfa lengra en nefið á okkur nær!
Það er einn þáttur sem Keflavík verður að halda rækt við, það er baráttan. Í gegnum tíðina hafa önnur lið hræðst þann baráttuanda sem Keflavík hefur búið yfir, þetta er eitt af okkar einkennum sem við höfum alltaf farið langt á og verðum að halda í.
Hjá stuðningsmönnum vil ég sjá öflugri hvatningu hjá fleirum, menn þurfa að losa um þær hömlur sem virðast hrjá okkur Keflvíkinga/Íslendinga þegar á völlinn er komið. Einnig vil ég sjá stuðningsmenn Keflavíkur sýna háttvísi í stúkunni og auka með því hróður félagsins. Það hefur því miður loðað við keflvíska áhorfendur í gegnum tíðina að þeir þyki með eindæmum ruddalegir í garð dómara og andstæðinga. Ég vil að við tökum höndum saman og breytum þessu viðhorfi, það gerum við m.a. með því að ávíta "svörtu sauðina" þegar þeir sleppa sér. Hvetjum liðið í sumar, sleppum öllu skítkasti í dómara, andstæðinga og stuðningsmenn hinna liðanna. Skemmtum okkur á vellinum í sumar, á jákvæðum nótum. ÁFRAM KEFLAVÍK !!!
Ég vill þakka Gunna kærlega fyrir að vera fyrsti tipparinn á heimasíðu Keflavíkur.
Áfram Keflavík
Rúnar I. Hannah