Fréttir

Knattspyrna | 24. maí 2005

Tippari vikunnar - Jón Örvar Arason

1. Hvernig fannst þér knattspyrnan í fyrstu umferðum Íslandsmótsins?
Íslandsmótið hefur farið vel af stað og skorað hefur verið grimmt í fyrstu tveimur umferðunum eða 31 mark og það er það sem fólk vill sjá. Einnig hefur ekkert jafntefli verið í þessum 10 leikjum. Sum liðin eru enn að slípa sig og koma sterkari inn fljótlega. Annars er ég ánægður með boltann sem ég hef séð til þessa. Valsmenn eru greinilega með hörkugott lið sem og FH.  Deildin á eftir að vera hörkuspennandi og ég held að ekkert lið eigi eftir að stinga af eins og oft hefur komið fyrir. Ég spái góðu móti framundan.

2.  Einhver úrslit sem komu þér á óvart í síðustu umferð?
Ekki get ég sagt það, nema þá kannski þetta stóra tap Grindvíkinga á heimavelli.

3. Hvaða leikmaður okkar var bestur á móti ÍBV?
Ingvi á meðan hans naut við. Og svo var Gestur klassagóður, annars var þetta sigur liðsheildarinnar.

4. Hvað á að gera við leikmenn sem brjóta líkt og Páll gerði í síðasta leik þegar hann fótbraut Ingva?
Páll Hjarðar á að fá leikbann í jafnlangan tíma sem það tekur Ingva að jafna sig, því annað eins brot hef ég ekki séð áður.

5. Hvernig spáir þú leikjunum í næstu umferð?
Keflavík-KR
Það verður hörkuleikur eins og alltaf. Ef strákarnir ná upp eins stemmningu í sig og þeir sýndu í Eyjum og svo bætast stuðningsmennirnir við og glæsilegur völlur þá verður ekkert að óttast. Við vinnum 2-0.

ÍA-Grindavík
Þetta gæti orðið hörkuviðureign og Grindvíkingar koma örugglega ákveðnir til leiks eftir tvö slæm töp.  Akranes verður enn að jafna sig á tapinu gegn Val. Fyrsta jafnteflið mun líta dagsins ljós 1-1.

Fylkir-Valur
Þarna verður hart barist. Tvö góð lið sem eiga eftir að vera í toppbaráttunni í sumar. Fylkir á heimavelli en það mun þó ekki duga þeim nema eitt stig gegn sterkum Valsmönnum. Hörkuleikur sem endar 2-2.

FH-ÍBV
Þetta ætti að vera léttur heimasigur hjá FH, þ.e.a.s ef þeir fá að halda sínum bestu leikmönnum inn á vellinum. Heimasigur 3-0.

Fram-Þróttur
Þróttur vinnur á Laugardalsvellinum. Tóti með markið í 0-1 sigri.

6. Hvaða lið á eftir að koma á óvart í sumar?
Keflavík á eftir að koma á óvart svo um munar. Og svo Valur en Willum er að byggja upp all svakalegt lið þarna á Hlíðarenda. Tveir góðir og sanngjarnir sigrar hjá þeim í fyrstu umferðunum. Spái liðinu í topp þremur.

7. Hverjir falla?
Tvö neðstu liðin eftir 18 leiki.

8. Hvað viltu sjá gerast hjá Keflavíkurliðinu í sumar og hjá stuðningsmönnum?
Ég vil sjá liðið spila góðan fótbolta og vera með baráttuandann í lagi í hverjum leik. Liðið er ungt og innanborðs eru geysilega efnilegir leikmenn með góða og reynda leikmenn á milli. Kristján Guðmundsson þjálfari er á réttri leið með liðið og ég er viss um það að strákarnir muni gleðja stuðningsmenn sína með góðum bolta og mikilli baráttu í leikjunum í sumar.

Við eigum virkilega góða stuðningsmenn og það sást og heyrðist í fyrsta leiknum gegn FH.  Og svo er það Puma-sveitin sem sem var svo hávær í Eyjum að það heyrðist ekkert í stuðningsmönnum Eyjamanna. Það er svo mikið að gerast í Keflavík þessa dagana eins og stofnun Fjölskylduklúbbsins sem fer af stað með miklum látum og er það ánægjuefni. Og svo eru það Sportmenn en það er klúbbur fyrrum leikmanna og stjórnarmanna Keflavíkurliðsins sem eiga eftir að veita liðinu og stjórnarmönnum mikinn stuðning í framtíðinni. K-klúbburinn er til staðar með sína öflugu stuðningsmenn.  Það er bara svo mikið að ske varðandi stuðninginn við liðið að við sem stöndum næst þessu erum virkilega ánægðir. ÁFRAM KEFLAVÍK.   

9. Nú hefur þú lengi verið viðloðandi knattspyrnuna hér á Suðurnesjum, svo lesendum til fróðleiks koma hér nokkrar aukaspurningar.
1.Hver er besti sóknar-, miðju-, varnar- og markmaður sem þú hefur séð spila með Keflavík?
Ragnar Margeirsson, Ingvi Guðmundsson, Guðni Kjartansson og Þorsteinn Ólafsson.

2. Eftirminnilegasta atvikið á Keflavíkurleik?
Þegar trukkurinn Þorsteinn Ólafsson skokkaði yfir allan völlinn gegn Val hérna í gamla daga til að taka vítaspyrnu og þrumaði boltanum í slána. Svo fast var skotið að boltinn lenti á miðjum vellinum og þá var sprettur á Steina til baka. Mjög eftirminnilegt.  Annars eru allar góðar markvörslur hjá okkar markmönnum gegnum tíðina eftirminnilegar enda höfum við átt bestu markmenn Íslands í fjöldamörg ár.

3. Ef Leeds og Keflavík myndu mætast með hvoru liðinu myndir þú halda?
Ég er Keflvíkingur, starfa með liðinu, fer með liðinu í gegnum sigra, töp, gleði og sorg. Vonandi að þetta svari spurningunni.

4. Hvaða ár spáir þú að Íslandsmeistaratitillin fari á loft í Keflavík næst?
Ég hef tröllatrú á þessu liði sem við erum með og það gæti alveg eins verið að það verði bara í ár sem það gæti gerst. Sumir halda sennilega að ég sé pínu klikkaður með þessa spá mína og þá er það bara allt í lagi. Annars var ég búinn að spá einhvers staðar að titillinn kæmi í september 2007 og það yrði rauðhærður fyrirliði sem tæki við bikarnum. Við sjáum til.

Ég vill þakka Jóni Örvari kærlega fyrir þátttökuna.

Rúnar I. Hannah

Stuðningsmannasíða Keflavíkur