Fréttir

Knattspyrna | 21. maí 2005

Titill hjá 5. flokki pilta

Í gær fór fram úrslitaleikur í Faxaflóamóti 5. flokks karla, C-liða.  Keflavík lék gegn Gróttu og var leikið á iðagrænum grasvelli á Iðavöllunum.  Keflavíkurpiltar áttu stórgóðan leik og sigruðu nokkuð sannfærandi 2-0.  Sigurður Þór Hallgrímsson kom Keflavík í 1-0 í fyrri hálfleik og var staðan þannig í hálfleik.  Í seinni hálfleik léku Keflvíkingar gegn sterkum vindinum, en piltarnir létu það ekki á sig fá og komu tvíelfdir til síðari hálfleiks og bættu við einu marki og var þar á ferð Emil Ægisson.  Fögnuður piltanna var mikill í leikslok enda Faxaflóameistaratitill í höfn.  Það var svo fyrirliði meistaraflokks Keflavíkur, Guðmundur Steinarsson, sem afhenti liðunum verðlaunin.  Gróttupiltar fengu silfurverðlaun en Keflvíkingar fengu gullið og bikar.

Lið Keflavíkur var þannig skipað: Njáll Skarphéðinsson, Hervar Bragi Eggertsson, Gústaf Pálsson, Guðni Friðrik Oddsson, Ólafur Elí Newman, Emil Ægisson, Þorbjörn Þórðarson, Birnir Ólason, Viktor Ólason, Bergþór Ingi Smárason, Gylfi Þór Ólafsson, Magnús Ari Brynjólfsson, Guðjón Örn Kristjánsson og Sigurður Þór Hallgrímsson

Meðfylgjandi myndir tók Skarphéðinn Njálsson á Iðavöllunum.