Fréttir

Knattspyrna | 2. maí 2005

Toyota-mót 8. flokks

Laugardaginn 30. apríl fór fram Toyota-mót 8. flokks í knattspyrnu í Reykjaneshöllinni.  Þar voru mjög ungir knattspyrnusnillingar á ferð, 4-6 ára!  Þetta var stór dagur hjá krökkunum, enda fyrsta mótið hjá allflestum keppendum.  Aldrei áður hefur mót fyrir þennan aldursflokk verið haldið á vegum knattspyrnudeildar Keflavíkur og því um „tilraun“ að ræða.

Mótið tókst mjög vel og voru keppendur jafnt sem foreldrar, afar, ömmur, systkini og allir þeir sem komu við í Höllinni mjög ánægðir með mótið.  Leikgleðin leyndi sér ekki og var alveg sérstaklega gaman að sjá svo lítil „kríli“ eltast við boltann og skipti hjá mörgum engu máli í hvort markið var skorað!!  Í mótinu voru leiknir 42 leikir (leiktími 1 x 6 mín.) og í þeim voru skoruð 140 mörk sem gerir 3,33 mörk að meðaltali í leik, frábær árangur það. Úrslit leikja voru ekki skráð og þ.a.l. engir sigurvegarar krýndir, sigurvegarar dagsins voru þeir sem tóku þátt.  Þátttökufélög í mótinu voru Keflavík með 5 lið, FH með 4 lið, ÍR með 3 lið og Þróttur Reykjavík með 3 lið og var heildarfjöldi keppenda 130.

Það var mikill fjöldi fólks í Höllinni að fylgjast með ungu snillingunum og má áætla að heildarfjöldinn hafi verið um 300-400 manns.  Það voru heilu fjölskyldurnar sem fylgdu sumum börnunum og voru ófáar myndavélarnar og upptökuvélarnar á lofti, enda um einstakan viðburð að ræða hjá börnunum.  Í mótslok fengu allir þátttakendur verðlaunapening og gómsæta pizzu frá Ingó á Langbest.  Það er næst víst, af þessu móti að dæma, að mót fyrir þennan aldurshóp eru komin til að vera.  Tilraunin tókst mjög vel - sjáumst að ári!

Myndir frá mótinu má sjá hér.  Athugið að yfirlit yfir myndasíður má sjá undir „Myndir“ hér efst á síðunni.