Tveir sigrar gegn Þór/KA hjá meistaraflokki kvenna
Sökum anna og sumarfría hefur umfjöllun um leiki meistaraflokks kvenna dottið niður í smátíma. Langar mig að bæta úr því.
Landsbankadeild, Keflavík - Þór/KA, 26. júní
Þetta var fyrri leikur liðanna á fimm dögum þar sem liðin drógust saman í VISA-bikarkeppninni. Leikur liðanna var merkilegur fyrir þær sakir að þó að Keflavík hefði mikla yfirburði út á vellinum var það Þór/KA sem komst yfir með tveimur mörkum frá Alexöndru Tómasdóttur. Það fyrra kom á 7. mínútu og það seinna á þeirri 17. og voru þetta einu sóknirnar sem liðið fékk á þessum kafla. Keflavík lét þó þetta ekki hafa áhrif á sig og náði að setja mark á 42. mínútu þegar Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði gott mark, 1-2. Í seinni hálfleik kom Björg Ásta Þórðadóttir í fyrsta sinn í sumar inn í lið Keflavíkur sem greinilega ætlaði að selja sig dýrt. Vesna Smiljkovic bætti við tveimur mörkum á 47. og 54. mínútu, 3-2. Karen Penglase setti eitt á 56. mínútu og kom Keflavík 4-2. Þór/KA skoraði sitt þriðja á 61. mínútu og var þar á ferðinni Elva Dogg Grímsdóttir, 4-3. Nína Ósk var ekki hætt og skoraði á 67. og 72. mínútu, kom Keflavík í 6-3 og þar við sat. Góður sigur Keflavíkur en kannski óþarfi að fá á sig þrjú mörk á heimavelli.
Keflavík: Anna Rún, Inga Lára, Linda (Karen Sævars 82.), Elísabet Ester, Donna (Björg Ásta 50.), Guðný Petrína (Eva 77.), Lilja Íris, Karen Penglase, Danka, Nína Ósk, Vesna
Varamenn: Þóra Reyn, Birna Marín, Kristín Lind, Thelma Dögg
VISA-bikarinn, Þór/KA - Keflavík, 30. júní
Þessi leikur var spilaður við góðar aðstæður á Akureyravelli. Eitthvað sem Keflavíkurliðið hefur ekki fengið mikið af í sumar en veðrið hefur ekki leikið við liðið í leikjum þess. Björg Ásta Þórðardóttir hóf sinn fyrsta leik í sumar en hún hefur verið að ná sér eftir krossbandaslit í ágúst í fyrra. Leikurinn var ekki gamall þegar Björg Ásta hafði sett mark sitt á leikinn en strax á 3. mínútu skoraði hún með góðum skalla og kom Keflavík yfir 0-1. Áfram hélt Keflavík að sækja og var greinilegt að innkoma Bjargar í vörn liðsins hleypti miklu öryggi í leik varnarinnar. Karen Penglase skoraði síðan á 8. mínútu og jók forskot Keflavíkur. Á 27. mínútu kom Vesna Smiljkovic svo Keflavík í 0-3. Lokaorðið átti Nína Ósk Kristinsdóttir þegar hún skoraði fjórða mark Keflavíkur á 33. mínútu. Þannig að í hálfleik gengu liðin til búningsklefa í stöðunni 0-4. Seinni hálfleikur var tíðindaminni og lögðu Þór/KA stúlkur allt í að bæta sinn hlut. En raunin var sú að Keflavík var með leikinn í góðu jafnvægi og átti frekar að geta bætt við en heimastúlkur að setja sitt fyrsta mark.
Keflavík: Þóra Reyn, Inga Lára, Linda (Eva 75.), Björg Ásta (Donna 46.), Elísabet Ester, Guðný Petrína, Lilja Íris, Karen Penglase, Danka (Birna Marín 85.), Nína Ósk, Vesna
Varamenn: Anna Rún, Karen Sævars, Kristín Lind, Thelma Dögg
ÞÞ
Myndir: Jón Örvar Arason
Nína Ósk hefur verið iðin við markaskorun í sumar.
Vesna og Linda fagna marki Vesnu á viðeigandi hátt.
Eitt af mörkum Keflavíkur gegn Þór/KA.
Danka, Inga Lára og Nína Ósk fagna marki Nínu.
Sótt hart að marki Þór/KA.
Vesna, Inga Lára og Eva hjálpa Nínu Ósk við eitt fagnið.
Björg Ásta og Linda í baráttu við leikmann Þór/KA.