Fréttir

Knattspyrna | 3. maí 2011

Tvö frá Jóhanni og sigur í fyrsta leik

Okkar menn byrjuðu keppnistímabilið með sigri gegn Stjörnunni á heimavelli í 1. umferð Pepsi-deildarinnar.  Nokkur vorbragur var á leiknum og baráttan í fyrirrúmi.  Stjörnumenn komust tvisvar yfir með mörkum frá Daníel Laxdal og Halldóri Orra Björnssyni en Hilmar Geir Eiðsson og Guðmundur Steinarsson jöfnuðu jafnharðan.  Það var svo varamaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson sem gerði út um leikinn með tveimur mörkum undir lokin.

Næsti leikur er útileikur gegn KR á KR-vellinum sunnudaginn 8. maí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 13. leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í efstu deild.  Þetta var fimmti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna, jafntefli hefur orðið í fimm leikjum en Stjarnan hefur unnið þrjá.  Markatalan er 20-17 fyrir Keflavík.
        
  • Þetta var fyrsti sigur Keflavíkur gegn Stjörnunni í efstu deild síðan árið 2003.  Síðan hafa liðin reyndar aðeins leikið fjóra leiki í deildinni árin 2009 og 2010 og hefur þremur þeirra lokið með jafntefli en Stjörnumenn unnið einn.
      
  • Keflavík hefur nú unnið fyrsta leik Íslandsmótsins fimm ár í röð.  Liðið tapaði síðast í fyrstu umferðinni árið 2006 þegar við töpuðum gegn ÍBV á útivelli.  Síðan hefur Keflavík unnið KR 2-1 árið 2007, Val 5-3,  FH 1-0 og Breiðablik 1-0 síðasta sumar.
          
  • Þeir Goran Jovanovski, Adam Larsson og Hilmar Geir Eiðsson léku allir sinn fyrsta opinbera leik fyrir Keflavík.  Grétar Hjartarson var einnig í leikmannahópnum en kom ekki við sögu í leiknum.
      
  • Með þátttöku Adam og Goran hafa alls 26 erlendir leikmenn leikið með Keflavík í efstu deild.  Goran er sá fyrsti frá Makedóníu en Adam er fimmti Svíinn sem leikur með okkur.  Áður hafa Michael Johansson, Kenneth Gustafsson, Marco Kotilainen og Patrik Redo gert það.
       
  • Hilmar Geir skoraði í sínum fyrsta leik með Keflavík í efstu deild.  Guðmundur Steinarsson skoraði hins vegar sitt 71. mark og er nú aðeins einu marki frá félagsmetinu í efstu deild.  Jóhann Birnir Guðmundsson er kominn með 23 mörk fyrir Keflavík og er orðinn 13. markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi í efstu deild.  Næstir eru Jón Ólafur Jónsson og Einar Ásbjörn Ólafsson með 24 mörk þannig að Jóhann ætti að færast lengra upp listann á næstunni.
            

Fótbolti.net
Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur var gríðarlega sáttur við sína menn sem sýndu mikinn karakter og unnu góðan 4-2 sigur eftir að hafa lent tvisvar sinnum undir gegn Stjörnunni í kvöld.

,,Þetta var baráttuleikur tveggja öflugra liða og fyrsti leikur svona pínu aukahnútur í maganum og þetta þróaðist uppí mjög snarpan leik og þeir ná forystu tvisvar í leiknum og það er kannski sem situr eftir í leiknum er að hafa aldrei gefist upp og mætt þeim og ná að jafna og ná að klára sigur á þrautseigjunni." 
 
Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar gengu sáttari af velli en Stjörnumenn að loknum fyrsta leik liðanna á Íslandsmótinu 2011. 4-2 sigur Keflavíkur hafðist eftir miklar sveiflur. Tvívegis komust Garðbæingar yfir en Keflvíkingar jöfnuðu jafnharðann. Það var síðan varamaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson sem kláraði leikinn fyrir Keflavík með tveimur mörkum á síðsta stundarfjórðung leiksins.
Ómar 5, Guðjón 5, Goran 6, Adam 6, Haraldur 6, Einar Orri 5,  Andri Steinn 6,  Arnór Ingvi 7 (Magnús Sverrir 7), Hilmar Geir 7 (Jóhann Birnir 8), Magnús Þórir 7 (Magnús Þór -), Guðmundur 7.

Morgunblaðið / Mbl.is
"Það er gaman að koma inná og skora. Auðvitað skiptir mestu máli að liðið vinni en það er miklu skemmtilegra ef ég skora," sagði Jóhann B. Guðmundsson léttur í bragði eftir að hann hafði tryggt Keflavík torsóttan 4:2 sigur á Stjörnunni í Pepsideildinni í gær. Jóhann kom inná sem varamaður 25 mínútum fyrir leikslok og skoraði mörkin tvö sem skildu liðin að. Því er óhætt að segja að hann hafi gert gæfumuninn, sem og Magnús S. Þorsteinsson sem einnig kom inná sem varamaður.
M: Haraldur, Arnór Ingvi, Hilmar Geir, Guðmundur, Jóhann Birnir.
 

Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 2. maí 2011
Keflavík 4
(Hilmar Geir Eiðsson 33., Guðmundur Steinarsson 64. (v), Jóhann Birnir Guðmundsson 80., 85.)
Stjarnan 2 (Daníel Laxdal 29., Halldór Orri Björnsson 61.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Goran Jovanovski, Adam Larsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 66.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason (Magnús Sverrir Þorsteinsson 64.), Andri Steinn Birgisson, Magnús Þórir Matthíasson (Magnús Þór Magnússon 90.), Guðmundur Steinarsson. 
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Bojan Stefán Ljubicic, Grétar Hjartarson.
Gul spjöld: Hilmar Geir Eiðsson (35.), Goran Jovanovski (90.).

Dómari: Kristinn Jakobsson.
Aðstoðardómarar: Gunnar Sverrir Gunnarsson og Leiknir Ágústsson.
Eftirlitsdómari: Ólafur Ragnarsson.
Áhorfendur: 1.150.



Gummi átti góðan leik.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)